Nám er nauðsyn Steinunn Stefánsdóttir skrifar 27. apríl 2012 06:00 Brottfall nemenda úr framhaldsskólum er meira hér á landi en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Einhver teikn munu vissulega vera um að þróunin sé heldur í rétta átt en hitt en engu að síður er staðan ekki viðunandi. Þegar leitað er skýringa á því hvers vegna þessu sé svona farið er ýmist bent á skóla eða heimili. Því hefur verið haldið fram að skólarnir mæti ekki þörfum nemenda og/eða þörfum atvinnulífsins sem skyldi, að námsframboð framhaldsskóla sé of einhæft og að til dæmis starfsnám skorti. Allt eru þetta áreiðanlega þættir sem gera að einhverju leyti að verkum að hluti nemenda telur sig ekki eiga nægilega mikið erindi í framhaldsskóla. Þessar skýringar duga þó ekki einar og sér. Ummæli Sigríðar Huldar Jónsdóttur, skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri, í viðtali við Akureyri vikublað hafa vakið athygli en hún sagði þar að dæmi væru um að foreldrar eða forráðamenn þvinguðu börn til að hætta námi í framhaldsskólum til að vinna fyrir heimilinu eða þiggja atvinnuleysisbætur og leggja þær til heimilisins. Ástæðulaust er að rengja orð skólameistarans en þau lýsa menningu þar sem ekki er borin virðing fyrir námi, nám sem á að vera unglingi ávísun á meiri lífsgæði er látið víkja fyrir skammtímasjónarmiðum. Spekin um að bókvitið verði ekki í askana látið og að skóli lífsins sé hinn eini sanni skóli er hér lífseig, svo ekki sé meira sagt. Fyrir fáeinum áratugum var nám eftir skólaskyldu fyrst og fremst á færi hinna efnameiri og jafnvel eftir að kjör almennings voru orðin þannig að það væri í raun á færi flestra að hafa börn sín í fæði og húsnæði gegnum framhaldsskólanám þá þótti ekki manndómsbragur yfir öðru en að unglingar stæðu sjálfir, að minnsta kosti að einhverju leyti, undir kostnaði við að ganga í framhaldsskóla. Tilboð um vel launaða vinnu varð þannig til þess að margir lögðu áform um framhaldsskólanám á hilluna. Enn er það svo að nám víkur of oft fyrir möguleikum á tekjum. Meðan framboð á atvinnu var hér mikið og þeir sem réðu sig til starfa höfðu góða möguleika á að pressa upp laun voru þeir þannig margir sem sneru baki við námi sem í fljótu bragði virtist ekki auka möguleika á atvinnu og tekjum. Þessi staða er ekki lengur uppi en menningin sem setur námið í annað sæti er enn fyrir hendi. Menningarvandinn er meiri en þessi. Það er gömul saga (og gömul tugga kannski líka) að hér skorti fjölbreytileika í framhaldsskólana. Það er mikil einföldun að kenna skólunum einum um það. Hér ríkir einfaldlega ekki sú menning fagvitundar sem þekkist í rótgrónum borgar- og iðnaðarsamfélögum. Þannig gera fjöldamargar starfsgreinar enga kröfu um menntun þeirra sem við fagið vinna og því fátt sem kallar á að efnt sé til kostnaðar við að stofna til og halda úti námi í slíkum greinum. Til lengri tíma litið er fjárfesting í námi góð fjárfesting, bæði fyrir samfélagið og fyrir einstaklingana. Ekki verður dregið úr brottfalli úr framhaldsskólum öðruvísi en með viðhorfsbreytingu í átt til aukinnar virðingar fyrir menntun. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Skoðanir Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun
Brottfall nemenda úr framhaldsskólum er meira hér á landi en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Einhver teikn munu vissulega vera um að þróunin sé heldur í rétta átt en hitt en engu að síður er staðan ekki viðunandi. Þegar leitað er skýringa á því hvers vegna þessu sé svona farið er ýmist bent á skóla eða heimili. Því hefur verið haldið fram að skólarnir mæti ekki þörfum nemenda og/eða þörfum atvinnulífsins sem skyldi, að námsframboð framhaldsskóla sé of einhæft og að til dæmis starfsnám skorti. Allt eru þetta áreiðanlega þættir sem gera að einhverju leyti að verkum að hluti nemenda telur sig ekki eiga nægilega mikið erindi í framhaldsskóla. Þessar skýringar duga þó ekki einar og sér. Ummæli Sigríðar Huldar Jónsdóttur, skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri, í viðtali við Akureyri vikublað hafa vakið athygli en hún sagði þar að dæmi væru um að foreldrar eða forráðamenn þvinguðu börn til að hætta námi í framhaldsskólum til að vinna fyrir heimilinu eða þiggja atvinnuleysisbætur og leggja þær til heimilisins. Ástæðulaust er að rengja orð skólameistarans en þau lýsa menningu þar sem ekki er borin virðing fyrir námi, nám sem á að vera unglingi ávísun á meiri lífsgæði er látið víkja fyrir skammtímasjónarmiðum. Spekin um að bókvitið verði ekki í askana látið og að skóli lífsins sé hinn eini sanni skóli er hér lífseig, svo ekki sé meira sagt. Fyrir fáeinum áratugum var nám eftir skólaskyldu fyrst og fremst á færi hinna efnameiri og jafnvel eftir að kjör almennings voru orðin þannig að það væri í raun á færi flestra að hafa börn sín í fæði og húsnæði gegnum framhaldsskólanám þá þótti ekki manndómsbragur yfir öðru en að unglingar stæðu sjálfir, að minnsta kosti að einhverju leyti, undir kostnaði við að ganga í framhaldsskóla. Tilboð um vel launaða vinnu varð þannig til þess að margir lögðu áform um framhaldsskólanám á hilluna. Enn er það svo að nám víkur of oft fyrir möguleikum á tekjum. Meðan framboð á atvinnu var hér mikið og þeir sem réðu sig til starfa höfðu góða möguleika á að pressa upp laun voru þeir þannig margir sem sneru baki við námi sem í fljótu bragði virtist ekki auka möguleika á atvinnu og tekjum. Þessi staða er ekki lengur uppi en menningin sem setur námið í annað sæti er enn fyrir hendi. Menningarvandinn er meiri en þessi. Það er gömul saga (og gömul tugga kannski líka) að hér skorti fjölbreytileika í framhaldsskólana. Það er mikil einföldun að kenna skólunum einum um það. Hér ríkir einfaldlega ekki sú menning fagvitundar sem þekkist í rótgrónum borgar- og iðnaðarsamfélögum. Þannig gera fjöldamargar starfsgreinar enga kröfu um menntun þeirra sem við fagið vinna og því fátt sem kallar á að efnt sé til kostnaðar við að stofna til og halda úti námi í slíkum greinum. Til lengri tíma litið er fjárfesting í námi góð fjárfesting, bæði fyrir samfélagið og fyrir einstaklingana. Ekki verður dregið úr brottfalli úr framhaldsskólum öðruvísi en með viðhorfsbreytingu í átt til aukinnar virðingar fyrir menntun.