Lífið

Hetjur snúa bökum saman

Stórmyndin The Avengers verður heimsfrumsýnd hér á landi annað kvöld. Myndin segir frá baráttu ofurhetja við illmennið Loka.

The Avengers er sjötta kvikmyndin sem gerð hefur verið um ofurhetjur Marvel-teiknimyndasagnanna sem komu fyrst út árið 1963.

Söguþráður myndarinnar er á þann veg að illmennið Loki hyggst gera árás á jörðina og taka ofurhetjurnar hjá öryggisstofnuninni S.H.I.E.L.D. höndum saman í tilraun til að stöðva Loka. Joss Whedon, sem er þekktastur fyrir að hafa skapað Buffy the Vampire Slayer, leikstýrir og skrifar handritið að myndinni.

Einvalalið leikara fer með hlutverk ofurhetjanna og má þar helst nefna Robert Downey Jr. sem fer með hlutverk Iron Man, Mark Ruffalo sem leikur hinn græna Hulk, Chris Hemsworth sem fer með hlutverk goðsins Þórs, Scarlett Johansson sem leikur Black Widow og loks Jeremy Renner í hlutverki Hawkeye. Þá fer Samuel L. Jackson með hlutverk Nick Fury, yfirmanns S.H.I.E.L.D.

Gagnrýnendur eru flestir sammála um að Whedon hafi tekist einstaklega vel til í persónusköpuninni og hæla bæði samtölum og tæknibrellum myndarinnar í hástert. Aðeins blaðamanni Boxoffice Magazine þykir myndin slök og líkir henni við Transformers 3.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.