Tíska og hönnun

Vandað vel til verka

Halla Hákonardóttir
Halla Hákonardóttir
Útskriftarsýning fatahönnunardeildar Listaháskóla Íslands var haldin á sumardaginn fyrsta og þar kenndi ýmissa grasa. Ellefu fatahönnuðir útskrifuðust í ár og sýndu meðal annars vel sniðnar buxnadragtir á konur og risavaxin glimmervesti.

„Ég hef farið á flestar útskriftarsýningarnar og þessi stóð upp úr sem sú besta hingað til. Þetta er einhver ofur-árgangur í ár," segir Ásgrímur Már Friðriksson fatahönnuður, sem sat á fremsta bekk á sýningunni.

Tískusýningin var í Hafnarhúsinu en hægt verður að berja fatnaðinn augum fram til 6. maí.

„Það var greinilegt að þær hafa nýtt tíma sinn vel og það var allt mjög vandað. Saumaskapurinn var til fyrirmyndar og flestar fatalínurnar eitthvað sem gæti farið beint í sölu í búðunum. Þær eiga framtíðina fyrir sér," segir Ásgrímur sem sjálfur var hrifnastur af fatalínu Heru Guðmundsdóttur, Önnu Kristínar Sigurðardóttur, Bjargar Skarphéðinsdóttur og Mai Shirato.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×