Skýrar leiðir til lengri tíma 16. apríl 2012 07:00 Námskeið sem eru skilyrði fyrir því að fólk fái forsamþykki fyrir ættleiðingu verða ekki haldin í bili á vegum Íslenskrar ættleiðingar. Ástæðan er fjárskortur. Námskeiðin hafa verið haldin til að uppfylla skilyrði Haag-samningsins um alþjóðlegar ættleiðingar en þar er því lofað að þjálfa og undirbúa væntanlega kjörforeldra eins vel og kostur er. Íslensk ættleiðing hefur annast þetta námskeiðahald fyrir væntanlega kjörforeldra og hafa námskeiðin mælst vel fyrir. Nú eru 100 fjölskyldur í umsóknarferli hjá Íslenskri ættleiðingu, þar af bíða 44 forsamþykkis. Ljóst er að ef ekki verður leyst úr málum milli Íslenskrar ættleiðingar og innanríkisráðuneytisins þá munu sumir þeirra sem nú eru að hefja umsóknarferli lenda í blindgötu, auk þess sem óvissan kemur í veg fyrir að nýir foreldrar geti hafið ættleiðingarferli. Þetta gerist á sama tíma og kostnaður foreldra vegna tæknifrjóvgana hefur aukist til muna frá því sem áður var. Samkvæmt reglugerð sem gildir út þetta ár er fyrsta tæknifrjóvgun barnlausra para og einhleypra kvenna ekki niðurgreidd eins og áður og alfarið hefur verið hætt að greiða niður tæknifrjóvgunarmeðferðir fólks sem á barn fyrir. Sjúkratryggingar taka þannig eingöngu þátt í kostnaði við aðra, þriðju og fjórðu tæknifrjóvgunarmeðferð þeirra sem barnlausir eru fyrir. Óvíst er svo hvað við tekur þegar reglugerðin fellur úr gildi í árslok. Útlitið er þannig ekki bjart hjá því fólki sem af ýmsum ástæðum getur ekki eignast börn án aðstoðar. Báðar leiðir, ættleiðing og tæknifrjóvgun, eru dýrar og vart á færi nema þeirra sem hafa þokkalegar tekjur. Ættleiðingaferlið hefur hingað til verið langt og strangt en nú virðist sem alger pattstaða ríki á þeim vettvangi. Það ástand er auðvitað ófært því í hinu stóra samhengi er ekki um að ræða háar fjárhæðir til að unnt verði að halda námskeið fyrir verðandi kjörforeldra. Eins og staðan er nú er það eingöngu á færi vel efnaðra að eignast börn með með ættleiðingu og tæknifrjóvgun. Þeim sem ætla að ættleiða eru sett skilyrði um eignir, auk þess sem hreinn kostnaður við ættleiðingu nemur nokkur hundruð þúsundum króna. Það sama á við um tæknifrjóvganir, þ.e. að kostnaður við hverja meðferð nemur nokkur hundruð þúsundum króna. Ofan á leggst sú óvissa að námskeið fyrir verðandi kjörforeldra eru í uppnámi og reglugerð sú sem unnið er eftir í tæknifrjóvgunarmálum rennur út í lok þessa árs. Því fylgir iðulega sársauki að geta ekki eignast börn með þeim einfalda hætti sem flestum ber sem betur fer gæfa til. Sá sársauki yrði sannarlega léttbærari ef fyrir lægju bæði ljósar og færar leiðir til þess að eignast börn með tæknifrjóvgun eða ættleiðingu eftir því sem fólk kýs eða auðnast. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun
Námskeið sem eru skilyrði fyrir því að fólk fái forsamþykki fyrir ættleiðingu verða ekki haldin í bili á vegum Íslenskrar ættleiðingar. Ástæðan er fjárskortur. Námskeiðin hafa verið haldin til að uppfylla skilyrði Haag-samningsins um alþjóðlegar ættleiðingar en þar er því lofað að þjálfa og undirbúa væntanlega kjörforeldra eins vel og kostur er. Íslensk ættleiðing hefur annast þetta námskeiðahald fyrir væntanlega kjörforeldra og hafa námskeiðin mælst vel fyrir. Nú eru 100 fjölskyldur í umsóknarferli hjá Íslenskri ættleiðingu, þar af bíða 44 forsamþykkis. Ljóst er að ef ekki verður leyst úr málum milli Íslenskrar ættleiðingar og innanríkisráðuneytisins þá munu sumir þeirra sem nú eru að hefja umsóknarferli lenda í blindgötu, auk þess sem óvissan kemur í veg fyrir að nýir foreldrar geti hafið ættleiðingarferli. Þetta gerist á sama tíma og kostnaður foreldra vegna tæknifrjóvgana hefur aukist til muna frá því sem áður var. Samkvæmt reglugerð sem gildir út þetta ár er fyrsta tæknifrjóvgun barnlausra para og einhleypra kvenna ekki niðurgreidd eins og áður og alfarið hefur verið hætt að greiða niður tæknifrjóvgunarmeðferðir fólks sem á barn fyrir. Sjúkratryggingar taka þannig eingöngu þátt í kostnaði við aðra, þriðju og fjórðu tæknifrjóvgunarmeðferð þeirra sem barnlausir eru fyrir. Óvíst er svo hvað við tekur þegar reglugerðin fellur úr gildi í árslok. Útlitið er þannig ekki bjart hjá því fólki sem af ýmsum ástæðum getur ekki eignast börn án aðstoðar. Báðar leiðir, ættleiðing og tæknifrjóvgun, eru dýrar og vart á færi nema þeirra sem hafa þokkalegar tekjur. Ættleiðingaferlið hefur hingað til verið langt og strangt en nú virðist sem alger pattstaða ríki á þeim vettvangi. Það ástand er auðvitað ófært því í hinu stóra samhengi er ekki um að ræða háar fjárhæðir til að unnt verði að halda námskeið fyrir verðandi kjörforeldra. Eins og staðan er nú er það eingöngu á færi vel efnaðra að eignast börn með með ættleiðingu og tæknifrjóvgun. Þeim sem ætla að ættleiða eru sett skilyrði um eignir, auk þess sem hreinn kostnaður við ættleiðingu nemur nokkur hundruð þúsundum króna. Það sama á við um tæknifrjóvganir, þ.e. að kostnaður við hverja meðferð nemur nokkur hundruð þúsundum króna. Ofan á leggst sú óvissa að námskeið fyrir verðandi kjörforeldra eru í uppnámi og reglugerð sú sem unnið er eftir í tæknifrjóvgunarmálum rennur út í lok þessa árs. Því fylgir iðulega sársauki að geta ekki eignast börn með þeim einfalda hætti sem flestum ber sem betur fer gæfa til. Sá sársauki yrði sannarlega léttbærari ef fyrir lægju bæði ljósar og færar leiðir til þess að eignast börn með tæknifrjóvgun eða ættleiðingu eftir því sem fólk kýs eða auðnast.