Embættið okkar 16. apríl 2012 07:00 Þegar við veljum forseta erum við að velja okkur. Þannig hafa þessar kosningar þróast í áranna rás og stjórnmálamennirnir, embættismennirnir, menntamennirnir og fjölmiðlamennirnir og aðrir sjálfskipaðir sálnahirðar ráða ekki neitt við neitt en neyðast til að elta hjarðirnar. Við erum að velja spegilmynd okkar. Við veljum einhvern sem við þekkjum okkur í og alla þá viðkunnanlegu eiginleika sem við teljum okkur búa yfir. Lengi hefur okkur ekki alls kostar líkað við sjálf okkur sem þjóð en komandi kosningar eru tækifæri til að laga laskaða sjálfsmynd. Okkur finnst að þetta þurfi að vera manneskja sem er aðeins betri en við – án þess þó að vita of vel af sér – manneskja sem við getum litið upp til, manneskja með ríka dómgreind sem kann að taka ákvarðanir þegar þarf að gera það – og taka ekki ákvarðanir þegar þess þarf með – manneskja sem skynjar sig í þjóðarhafinu, stendur með okkur í biðröðinni í búðinni en er um leið framúrskarandi dæmi um okkur á heimsmóti þjóðanna. Við pírum augun og sjáum fyrir okkur viðkomandi einstakling. Að stíga út úr flugvél og veifa hæversklega og vinalega, kanna heiðursvörðinn (hlýtur að vera erfitt að halda andlitinu við þá skringilegu iðju) og heilsa öllum þessum velbornu háeðlum sem hallirnar í útlöndum eru fullar af… Á blaðamannafundi að lýsa sér og landinu sínu á trúverðugan og skemmtilegan og hógværan hátt án þess að hljóma eins og landkynningarbæklingur eða bílasali að selja druslu. Að stíga út úr flugvél í þorpi, taka á móti blómum frá niðurlútum stelpum í þjóðbúningi (sem er okkar heiðursvörður) og brosa svo upp í rokið… Að halda nýársávarp í sjónvarpi… Gleðjast með þjóðinni, syrgja með henni, standa með henni. Við pírum augun og mátum alls konar fólk við þetta starf. Viðkomandi þarf að komast vel að orði af sjálfsdáðum, hafa til að bera virðuleik og alþýðleik í einhverjum óskilgreindum hlutföllum… sem sagt: Við eins og við ímyndum okkur sjálf okkur í sparifötunum. Sjálfur man ég reyndar bara eftir Ásgeiri Ásgeirssyni án fata, þótt hann væri þjóðhöfðingja fjarlægastur og viðhafnarmestur. Hann var beri forsetinn – svona næstum því – alltaf í sundskýlu. Hann var tíður gestur í gömlu sundlaugunum í Laugardal og leiddi þjóð sína í því stríði sem þá geisaði: Að sigra aðrar Norðurlandaþjóðir í 200 metra sundiðkun – þar sem við höfðum frægan sigur, miðað við fólksfjölda. Allir hengdu fötin sín á snaga í þá daga en hann var úti í horni og fékk þrjá snaga fyrir sig. Forsetinn. Ég man betur eftir Kristjáni Eldjárn. Ógleymanleg er ljósmyndin af honum í bók Páls Valssonar um Vigdísi þar sem hann stígur út úr alþingishúsinu eftir embættistöku hennar og er ekki lengur forseti, lyftir höndunum af kæti og fagnar fullur af galsa og einhverri óskilgreindri orku – loksins laus, og nýbúinn að yrkja þessa vísu: „Að eyða sínum ævidögum / í átveislum og drykkjuklið / er synd gegn guðs og lífsins lögum / og liggur dauðarefsing við." Hann var virðulegur og sómakær í framkomu eins og hann tæki það alvarlega að vera fulltrúi þjóðarinnar – þjóðar sem tæki það alvarlega að vera þjóð – það væri honum jafnvel byrði; í sjónvarpsávörpunum var hann alltaf á svipinn eins og hann væri að segja eitthvað mikilsvert – og var það alveg áreiðanlega – og hann talaði af undraverðri fimi um vér og oss. Hann þéraði þjóð sína. Svo kom Vigdís og bauð þjóðinni dús. Allt í einu urðum við öll svolítið Vigdísarleg. Nútímalegir heimsborgarar, menningarlegt fólk, jafnréttissinnar, ræktendur, brosmild þjóð. Því að þegar við veljum forseta erum við að velja okkur. Og ekki nóg með það: við veljum sjálf. Forsetakosningar eru lýðræðislegar, sem er meira en sagt verður um kosningar til þings þar sem misvægi atkvæða hefur ævinlega verið slíkt að naumast verður talað um sumt fólkið á þingi sem fulltrúa kjósenda heldur fremur byggðarlaga og fyrirtækja heima í héraði. Einn maður – eitt atkvæði. Forseti hefur því visst umboð allrar þjóðarinnar – visst. En umboð forsetans til að neita að skrifa undir lög og hegða sér að öðru leyti sem eindreginn fulltrúi þjóðarinnar gagnvart þinginu væri ótvírætt ef hann væri kosinn eftir tvær umferðir. Það segir sig eiginlega sjálft að viðkomandi þarf að hafa meirihluta þjóðar að baki sér til að tala um sig sem holdgerving „þjóðarviljans." Hann má heldur ekki gleyma því að hann er líka forseti þeirra sem kusu hann ekki og eru ósammála honum. Kannski er sú tíð liðin að forseti sé allsherjar sameiningarafl – kannski er ekkert lengur til sem sameinað getur þessa sundurlyndisþjóð – en forseti Íslands þarf samt ekki að leggja sig í framkróka við að vera sundrungarafl íslensku þjóðarinnar. Eða láta sem svo að íslenska þjóðin samanstandi einungis af fólki sem er sammála honum. Íslenska lýðveldið er ungt og reglur þess og hefðir óljósar. Eins og ýmislegt annað er forsetaembættið því marki brennt að íslenskt samfélag er stundum eins og impróvíserað jafnharðan. Það skiptir því máli að í embættið veljist manneskja sem kann að fara með vald. Skynjar aflið í þessu embætti en beitir því ekki nema nauðbeygð. Eins og margs konar frægðarfólk má reyna er íslenska þjóðin stundum hverflynd í dálæti sínu á einstaklingum; allt í einu er einhver snarlega sett(ur) út af sakramentinu fyrir óljósar sakir aðrar en að þjóðin er orðin leið á viðkomandi og vill eitthvað nýtt. Forseti þarf að vera yfir slíkt stundardálæti hafinn. Nú er svo komið fyrir þessari þjóð að hún þarf leiðtoga – ekki bara í pólitískum úrlausnarefnum dægranna heldur ekki síður í andlegum efnum, einhvern sem stendur fyrir verðmæti og önnur gildi en mæld eru í peningum, ný viðhorf, nýtt sálarástand – einhvern sem vekur með fólki góðar kenndir. Við lifum tíma sem einkennast af þaulskipulögðu þrasi. Þjóðin þarf forseta sem hún getur hlustað á, sem segir henni satt. Hún þarf forseta sem henni getur þótt vænt um. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Forsetakosningar 2012 Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun
Þegar við veljum forseta erum við að velja okkur. Þannig hafa þessar kosningar þróast í áranna rás og stjórnmálamennirnir, embættismennirnir, menntamennirnir og fjölmiðlamennirnir og aðrir sjálfskipaðir sálnahirðar ráða ekki neitt við neitt en neyðast til að elta hjarðirnar. Við erum að velja spegilmynd okkar. Við veljum einhvern sem við þekkjum okkur í og alla þá viðkunnanlegu eiginleika sem við teljum okkur búa yfir. Lengi hefur okkur ekki alls kostar líkað við sjálf okkur sem þjóð en komandi kosningar eru tækifæri til að laga laskaða sjálfsmynd. Okkur finnst að þetta þurfi að vera manneskja sem er aðeins betri en við – án þess þó að vita of vel af sér – manneskja sem við getum litið upp til, manneskja með ríka dómgreind sem kann að taka ákvarðanir þegar þarf að gera það – og taka ekki ákvarðanir þegar þess þarf með – manneskja sem skynjar sig í þjóðarhafinu, stendur með okkur í biðröðinni í búðinni en er um leið framúrskarandi dæmi um okkur á heimsmóti þjóðanna. Við pírum augun og sjáum fyrir okkur viðkomandi einstakling. Að stíga út úr flugvél og veifa hæversklega og vinalega, kanna heiðursvörðinn (hlýtur að vera erfitt að halda andlitinu við þá skringilegu iðju) og heilsa öllum þessum velbornu háeðlum sem hallirnar í útlöndum eru fullar af… Á blaðamannafundi að lýsa sér og landinu sínu á trúverðugan og skemmtilegan og hógværan hátt án þess að hljóma eins og landkynningarbæklingur eða bílasali að selja druslu. Að stíga út úr flugvél í þorpi, taka á móti blómum frá niðurlútum stelpum í þjóðbúningi (sem er okkar heiðursvörður) og brosa svo upp í rokið… Að halda nýársávarp í sjónvarpi… Gleðjast með þjóðinni, syrgja með henni, standa með henni. Við pírum augun og mátum alls konar fólk við þetta starf. Viðkomandi þarf að komast vel að orði af sjálfsdáðum, hafa til að bera virðuleik og alþýðleik í einhverjum óskilgreindum hlutföllum… sem sagt: Við eins og við ímyndum okkur sjálf okkur í sparifötunum. Sjálfur man ég reyndar bara eftir Ásgeiri Ásgeirssyni án fata, þótt hann væri þjóðhöfðingja fjarlægastur og viðhafnarmestur. Hann var beri forsetinn – svona næstum því – alltaf í sundskýlu. Hann var tíður gestur í gömlu sundlaugunum í Laugardal og leiddi þjóð sína í því stríði sem þá geisaði: Að sigra aðrar Norðurlandaþjóðir í 200 metra sundiðkun – þar sem við höfðum frægan sigur, miðað við fólksfjölda. Allir hengdu fötin sín á snaga í þá daga en hann var úti í horni og fékk þrjá snaga fyrir sig. Forsetinn. Ég man betur eftir Kristjáni Eldjárn. Ógleymanleg er ljósmyndin af honum í bók Páls Valssonar um Vigdísi þar sem hann stígur út úr alþingishúsinu eftir embættistöku hennar og er ekki lengur forseti, lyftir höndunum af kæti og fagnar fullur af galsa og einhverri óskilgreindri orku – loksins laus, og nýbúinn að yrkja þessa vísu: „Að eyða sínum ævidögum / í átveislum og drykkjuklið / er synd gegn guðs og lífsins lögum / og liggur dauðarefsing við." Hann var virðulegur og sómakær í framkomu eins og hann tæki það alvarlega að vera fulltrúi þjóðarinnar – þjóðar sem tæki það alvarlega að vera þjóð – það væri honum jafnvel byrði; í sjónvarpsávörpunum var hann alltaf á svipinn eins og hann væri að segja eitthvað mikilsvert – og var það alveg áreiðanlega – og hann talaði af undraverðri fimi um vér og oss. Hann þéraði þjóð sína. Svo kom Vigdís og bauð þjóðinni dús. Allt í einu urðum við öll svolítið Vigdísarleg. Nútímalegir heimsborgarar, menningarlegt fólk, jafnréttissinnar, ræktendur, brosmild þjóð. Því að þegar við veljum forseta erum við að velja okkur. Og ekki nóg með það: við veljum sjálf. Forsetakosningar eru lýðræðislegar, sem er meira en sagt verður um kosningar til þings þar sem misvægi atkvæða hefur ævinlega verið slíkt að naumast verður talað um sumt fólkið á þingi sem fulltrúa kjósenda heldur fremur byggðarlaga og fyrirtækja heima í héraði. Einn maður – eitt atkvæði. Forseti hefur því visst umboð allrar þjóðarinnar – visst. En umboð forsetans til að neita að skrifa undir lög og hegða sér að öðru leyti sem eindreginn fulltrúi þjóðarinnar gagnvart þinginu væri ótvírætt ef hann væri kosinn eftir tvær umferðir. Það segir sig eiginlega sjálft að viðkomandi þarf að hafa meirihluta þjóðar að baki sér til að tala um sig sem holdgerving „þjóðarviljans." Hann má heldur ekki gleyma því að hann er líka forseti þeirra sem kusu hann ekki og eru ósammála honum. Kannski er sú tíð liðin að forseti sé allsherjar sameiningarafl – kannski er ekkert lengur til sem sameinað getur þessa sundurlyndisþjóð – en forseti Íslands þarf samt ekki að leggja sig í framkróka við að vera sundrungarafl íslensku þjóðarinnar. Eða láta sem svo að íslenska þjóðin samanstandi einungis af fólki sem er sammála honum. Íslenska lýðveldið er ungt og reglur þess og hefðir óljósar. Eins og ýmislegt annað er forsetaembættið því marki brennt að íslenskt samfélag er stundum eins og impróvíserað jafnharðan. Það skiptir því máli að í embættið veljist manneskja sem kann að fara með vald. Skynjar aflið í þessu embætti en beitir því ekki nema nauðbeygð. Eins og margs konar frægðarfólk má reyna er íslenska þjóðin stundum hverflynd í dálæti sínu á einstaklingum; allt í einu er einhver snarlega sett(ur) út af sakramentinu fyrir óljósar sakir aðrar en að þjóðin er orðin leið á viðkomandi og vill eitthvað nýtt. Forseti þarf að vera yfir slíkt stundardálæti hafinn. Nú er svo komið fyrir þessari þjóð að hún þarf leiðtoga – ekki bara í pólitískum úrlausnarefnum dægranna heldur ekki síður í andlegum efnum, einhvern sem stendur fyrir verðmæti og önnur gildi en mæld eru í peningum, ný viðhorf, nýtt sálarástand – einhvern sem vekur með fólki góðar kenndir. Við lifum tíma sem einkennast af þaulskipulögðu þrasi. Þjóðin þarf forseta sem hún getur hlustað á, sem segir henni satt. Hún þarf forseta sem henni getur þótt vænt um.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun