Að vega menn Guðmundur Andri Thorsson skrifar 2. apríl 2012 06:00 Eins og annað er þetta ágætlega orðað í Njálu. Gunnar á Hlíðarenda hefur starfað sem atvinnumaður í útlöndum í þeirri íþrótt sem þá var helst í boði: hermennsku; alls konar fantar og fífl ögra honum og mana hann til átaka en hann er í raun og veru seinþreyttur til vandræða, uppgefinn á blóðsúthellingum. Hann segir við Kolskegg bróður sinn: „Hvað eg veit," segir Gunnar, „hvort eg mun því óvaskari maður en aðrir menn sem mér þykir meira fyrir en öðrum mönnum að vega menn." Hann venst þessu aldrei, getur ekki staðið í þessu lengur; langar bara að vera bóndi frekar en kappi. Því að hvað svo sem átjánhundruð amerískir framhaldsspennuþættir á viku og allar glæpasögurnar reyna að telja okkur trú um þá er manninum ekki eiginlegt að drepa aðra menn. Lítið mál að skrökva, fegra, svíkja og pretta, hlunnfara, stela, lemja og lumbra á öðrum en hitt, að drepa aðra menn – það er ekki eðlilegt. Það er óeðli. Það er dauðasynd og kostar áreynslu. Maður þarf að stíga yfir mörk, breyta sér, slökkva í sér ljós. Oftast nær gera menn þetta með því að æra sig með hugmyndafræði á borð við ofsatrú, fasisma eða anarkisma og leggja markvisst stund á hatur á „hinum" – fólki af annarri trú eða þjóðerni eða svokölluðum kynþætti. Svo þurfa menn að hvolfa í sig alls kyns ólyfjan til að geta staðið í þessu, hermenn sem fara um í flokkum myrðandi eru ýmist blindfullir eða útúrskakkir. Halldór Laxness orðaði þetta ágætlega þegar hann skrifaði um Víetnam-stríðið og sagði eitthvað á þá leið að enginn maður ætti að drepa fleiri menn en hann gæti borðað sjálfur. Hér höfum við Íslendingar hlutverki að gegna. Frá árinu 2008 höfum við verið svolítið eins og maður sem deleraði á árshátíðinni og fer með veggjum. En í raun og veru er ýmislegt ágætt hér án þess að sérstök ástæða sé til að hælast um of af því: við erum til dæmis vopnlaus þjóð. Það er ástæða til að vera stoltur af því og halda því á lofti, án þess þó að fara að halda ræður um það í útlöndum að við séum best í því að vera vopnlaus. Stolt fólk hælist ekki um af því sem það er stolt af – það gera bara þeir sem eru óvissir um eigin verðleika. Og það yrði stórkostleg lygi ef við færum að básúna það hversu friðsöm þjóð við séum, friðelskandi eða góð – sé sá gállinn á almennum Íslendingi gæti hann þrasað mann til bana. En við erum vopnlaus þjóð. Og fengum merkilega staðfestingu á þeirri sérstöðu okkar í aðildarviðræðunum við ESB í vikunni þar sem Evrópusambandið viðurkennir þessa sérstöðu. Það er mikilsvert og mikil gæfa einni þjóð að vera herlaus. Víða um heim, í fátækum löndum, fara fram nokkurs konar Hungurleikar. Þar er þjóðum att saman af þeim sömu ríkjum sem koma jafnan fram sem friðargæsla og skynsemi heimsins. Um 90 prósent þeirra vopna sem flutt eru út í heiminum eru framleidd af fimm fastaríkjum Öryggisráðsins, Frakklandi, Bandaríkjunum, Kína, Bretlandi og Rússlandi. Stríðsátökum með tilheyrandi skelfingum og ójafnvægi er viðhaldið markvisst af vopnasölum. Í fátækum löndum Afríku, Asíu og Ameríku – og Evrópu fram á síðari ár – eru vopn seld glæpaklíkum sem ýmist eru við stjórnvölinn eða leiða uppreisnarmenn með tilheyrandi barnaránum og öðrum þeim viðbjóði sem tilheyrir stríðum. Greitt er fyrir vopnin með ýmsum varningi sem þessi lönd gætu gert sér mat úr á uppbyggilegan hátt, demöntum og fleiri slíkum verðmætum. Hinn stöðugi fjáraustur í vopn kemur í veg fyrir að peningum sé varið til raunverulegra verkefna sem bíða. Það eru gífurlegir hagsmunir ráðandi afla innan vopnasöluríkjanna að viðhalda ófriði í heiminum, viðhalda þeirri skipan sem nú er á eftirliti með vopnaviðskiptum. Það eftirlit er í stuttu máli ekki neitt. Amnesty International stendur nú fyrir herferð til að vekja athygli á þessum málum. Í júlí á þessu ári munu ríki Sameinuðu þjóðanna koma saman til að ræða og útfæra ályktun sem samþykkt var á allsherjarþingi árið 2007 um nauðsyn þess að gerður verði vopnaviðskiptasamningur í heiminum. Nú, fimm árum síðar stendur til að ákveða hvert inntak þessa samnings á að vera, hversu ítarlegur og yfirgripsmikill hann verði – hvort hann verði skotheldur eða bara málamynda-orðagjálfur. Einhvern veginn finnst manni að þarna gætu Íslendingar haft hugsanlegu hlutverki að gegna, haft rödd sem kann að skipta máli; vopnlaus þjóð. Við eigum hægara með að tjá okkur en sumar aðrar Norðurlandaþjóðir – til að mynda Svíar sem hafa löngum verið flæktir í ljósfælin vopnasöluhneyksli eða Danir sem fóru allt í einu að halda að þeir væru mikil og staðföst herþjóð og tóku að senda unga menn til Íraks og Afganistan til að deyja þar í stríðinu sem þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson gerðu Íslendinga samábyrga fyrir. Þó ekki væri nema til að bæta fyrir það hneyksli er þess vonandi að vænta að hinn vaski utanríkisráðherra okkar beiti sér af alefli fyrir því að gerður verði raunverulegur samningur á alþjóðavísu um vopnaviðskipti sem komi í veg fyrir eins og kostur er að ráðamenn geti farið með hernaði á hendur þjóðum sínum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun
Eins og annað er þetta ágætlega orðað í Njálu. Gunnar á Hlíðarenda hefur starfað sem atvinnumaður í útlöndum í þeirri íþrótt sem þá var helst í boði: hermennsku; alls konar fantar og fífl ögra honum og mana hann til átaka en hann er í raun og veru seinþreyttur til vandræða, uppgefinn á blóðsúthellingum. Hann segir við Kolskegg bróður sinn: „Hvað eg veit," segir Gunnar, „hvort eg mun því óvaskari maður en aðrir menn sem mér þykir meira fyrir en öðrum mönnum að vega menn." Hann venst þessu aldrei, getur ekki staðið í þessu lengur; langar bara að vera bóndi frekar en kappi. Því að hvað svo sem átjánhundruð amerískir framhaldsspennuþættir á viku og allar glæpasögurnar reyna að telja okkur trú um þá er manninum ekki eiginlegt að drepa aðra menn. Lítið mál að skrökva, fegra, svíkja og pretta, hlunnfara, stela, lemja og lumbra á öðrum en hitt, að drepa aðra menn – það er ekki eðlilegt. Það er óeðli. Það er dauðasynd og kostar áreynslu. Maður þarf að stíga yfir mörk, breyta sér, slökkva í sér ljós. Oftast nær gera menn þetta með því að æra sig með hugmyndafræði á borð við ofsatrú, fasisma eða anarkisma og leggja markvisst stund á hatur á „hinum" – fólki af annarri trú eða þjóðerni eða svokölluðum kynþætti. Svo þurfa menn að hvolfa í sig alls kyns ólyfjan til að geta staðið í þessu, hermenn sem fara um í flokkum myrðandi eru ýmist blindfullir eða útúrskakkir. Halldór Laxness orðaði þetta ágætlega þegar hann skrifaði um Víetnam-stríðið og sagði eitthvað á þá leið að enginn maður ætti að drepa fleiri menn en hann gæti borðað sjálfur. Hér höfum við Íslendingar hlutverki að gegna. Frá árinu 2008 höfum við verið svolítið eins og maður sem deleraði á árshátíðinni og fer með veggjum. En í raun og veru er ýmislegt ágætt hér án þess að sérstök ástæða sé til að hælast um of af því: við erum til dæmis vopnlaus þjóð. Það er ástæða til að vera stoltur af því og halda því á lofti, án þess þó að fara að halda ræður um það í útlöndum að við séum best í því að vera vopnlaus. Stolt fólk hælist ekki um af því sem það er stolt af – það gera bara þeir sem eru óvissir um eigin verðleika. Og það yrði stórkostleg lygi ef við færum að básúna það hversu friðsöm þjóð við séum, friðelskandi eða góð – sé sá gállinn á almennum Íslendingi gæti hann þrasað mann til bana. En við erum vopnlaus þjóð. Og fengum merkilega staðfestingu á þeirri sérstöðu okkar í aðildarviðræðunum við ESB í vikunni þar sem Evrópusambandið viðurkennir þessa sérstöðu. Það er mikilsvert og mikil gæfa einni þjóð að vera herlaus. Víða um heim, í fátækum löndum, fara fram nokkurs konar Hungurleikar. Þar er þjóðum att saman af þeim sömu ríkjum sem koma jafnan fram sem friðargæsla og skynsemi heimsins. Um 90 prósent þeirra vopna sem flutt eru út í heiminum eru framleidd af fimm fastaríkjum Öryggisráðsins, Frakklandi, Bandaríkjunum, Kína, Bretlandi og Rússlandi. Stríðsátökum með tilheyrandi skelfingum og ójafnvægi er viðhaldið markvisst af vopnasölum. Í fátækum löndum Afríku, Asíu og Ameríku – og Evrópu fram á síðari ár – eru vopn seld glæpaklíkum sem ýmist eru við stjórnvölinn eða leiða uppreisnarmenn með tilheyrandi barnaránum og öðrum þeim viðbjóði sem tilheyrir stríðum. Greitt er fyrir vopnin með ýmsum varningi sem þessi lönd gætu gert sér mat úr á uppbyggilegan hátt, demöntum og fleiri slíkum verðmætum. Hinn stöðugi fjáraustur í vopn kemur í veg fyrir að peningum sé varið til raunverulegra verkefna sem bíða. Það eru gífurlegir hagsmunir ráðandi afla innan vopnasöluríkjanna að viðhalda ófriði í heiminum, viðhalda þeirri skipan sem nú er á eftirliti með vopnaviðskiptum. Það eftirlit er í stuttu máli ekki neitt. Amnesty International stendur nú fyrir herferð til að vekja athygli á þessum málum. Í júlí á þessu ári munu ríki Sameinuðu þjóðanna koma saman til að ræða og útfæra ályktun sem samþykkt var á allsherjarþingi árið 2007 um nauðsyn þess að gerður verði vopnaviðskiptasamningur í heiminum. Nú, fimm árum síðar stendur til að ákveða hvert inntak þessa samnings á að vera, hversu ítarlegur og yfirgripsmikill hann verði – hvort hann verði skotheldur eða bara málamynda-orðagjálfur. Einhvern veginn finnst manni að þarna gætu Íslendingar haft hugsanlegu hlutverki að gegna, haft rödd sem kann að skipta máli; vopnlaus þjóð. Við eigum hægara með að tjá okkur en sumar aðrar Norðurlandaþjóðir – til að mynda Svíar sem hafa löngum verið flæktir í ljósfælin vopnasöluhneyksli eða Danir sem fóru allt í einu að halda að þeir væru mikil og staðföst herþjóð og tóku að senda unga menn til Íraks og Afganistan til að deyja þar í stríðinu sem þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson gerðu Íslendinga samábyrga fyrir. Þó ekki væri nema til að bæta fyrir það hneyksli er þess vonandi að vænta að hinn vaski utanríkisráðherra okkar beiti sér af alefli fyrir því að gerður verði raunverulegur samningur á alþjóðavísu um vopnaviðskipti sem komi í veg fyrir eins og kostur er að ráðamenn geti farið með hernaði á hendur þjóðum sínum.