Réttlát þjóðareign með arði Þorsteinn Pálsson skrifar 31. mars 2012 06:00 Stjórnarflokkarnir hafa sagt að breyta þurfi stjórnkerfi fiskveiða til þess að ná þremur markmiðum: Í fyrsta lagi að tryggja réttlæti. Í öðru lagi að gera auðlindina að þjóðareign. Í þriðja lagi að flytja arðinn til fólksins. Þetta eru allt göfug markmið. Þau vekja eðlilega nokkrar spurningar: Hvað breytist í raun og veru? Hvernig verður réttlætið í samanburði við óréttlætið sem sagt er að ríki. Hvernig finnur þjóðin að hún á meira í auðlindinni en áður? Hvað fá heimilin í sinn hlut sem þau njóta ekki í dag? Vegna þess að auðlindin er takmörkuð verður aldrei unnt að leyfa öllum að veiða sem vilja. Ríkisstjórnin telur hins vegar að því fleiri sem fá að veiða því meira verði réttlætið. Ef við föllumst á þetta þarf að svara því hversu mikil fjölgunin þarf að vera til að fullnægja réttlætinu. Þeirri spurningu er hins vegar ekki svarað í frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Næsta spurning er þá: Hvað kostar að ná réttlætinu fram með þessum hætti? Svarið við þeirri spurningu liggur í augum uppi. Með því að heildaraflinn er sá sami kemur minna í hlut hvers og eins. Ágóði einstakra fyrirtækja minnkar og tekjur hvers sjómanns lækka. Ekki er öldungis víst að allir sjái réttlætið í því. En svar ríkisstjórnarinnar er einfalt: Laun sjómanna þurfa ekki að lækka í krónum talið. Það má leysa með því að lækka gengi krónunnar. Fjármunir verða þá fluttir frá heimilunum til sjávarútvegsfyrirtækjanna. Kaupmáttur allra heimila í landinu rýrnar.Kostnaðurinn við réttlætið Með öðrum orðum: Kostnaðurinn við réttlætið er kaupmáttarrýrnun heimilanna. Þetta er það sem forseti Alþýðusambandsins var í vikunni að brýna menn á að koma í veg fyrir. Hann skilur ekki réttlæti ríkisstjórnarinnar. Ranglæti núverandi kerfis er að mati ríkisstjórnarinnar fólgið í því að hér veiða færri skip og færri sjómenn meiri afla en gengur og gerist meðal annarra þjóða. Afleiðingin af því eru hærri tekjur hvers sjómanns og meiri arður fyrir hverja útgerð. Þetta stuðlar að hærra gengi krónunnar en ella og hjálpar þannig til við að halda uppi kaupmætti heimilanna. Enn er ekki ljóst hversu langt ríkisstjórnin ætlar að ganga í því að auka réttlætið með því að fjölga veiðiskipum og sjómönnum. Fjölgi þeim um fjórðung er það samt svo að meira en 99 prósent landsmanna munu ekki finna beint fyrir auknu réttlæti nema í kjararýrnun. Þá er það spurning hverju skilgreining í lögum um þjóðareign breytir út frá réttlætissjónarmiði. Með því að sams konar skilgreining er í lögum og hefur verið í áratugi verður ekki séð að heimilin finni beint fyrir því ákvæði. Næst er þá spurningin hvernig úthlutunarpottar og tímatakmörk á veiðileyfum snerta 99 prósentin sem ekki fá ný störf við breytinguna. Því er fljótsvarað: Sá hluti þjóðarinnar finnur ekki fyrir neinni breytingu og fær ekkert í sinn hlut sem skilgreindur eigandi auðlindarinnar. Þegar öllu er á botninn hvolft nær réttlætið aðeins til þeirra sem fá nýjar veiðiheimildir og ný störf. Segja má að sérhagsmunir þeirra fáu séu réttlætið sem ríkisstjórnin er að berjast fyrir.Fæst réttlæti með hærri skatti? Þá er spurning hvort sú staðhæfing er rétt að stóraukin skattheimta sem Alþingi sér síðan um að dreifa út á ný skapi það almenna réttlæti sem allir þrá? Að hluta til svara lögmál hagfræðinnar þessari spurningu en að öðrum hluta ræður ólíkt tilfinningamat. Fyrst er á það að líta að óhagkvæmara stjórnkerfi dregur úr arðsemi og minnkar skattstofninn. Eins og áform ríkisstjórnarinnar eru nú á að taka að meðaltali nær allan hagnað fyrirtækjanna í ríkissjóð miðað við núverandi hagkvæmni. Það segir sig sjálft að fá þeirra munu starfa áfram eftir það. Þess vegna mun ríkisstjórnin gefa eftir og lækka skatthlutfallið. En réttlætið ætti þá eftir kenningunni að minnka í sama hlutfalli. Sú eftirgjöf mun fækka þeim fyrirtækjum sem leggja upp laupana. Eigi að síður mun ráðagerðin draga mjög þrótt úr atvinnugreininni. Hvaða svar á ríkisstjórnin þegar stór hluti fyrirtækjanna sýnir halla á rekstri? Hún lætur þau ekki fara á hausinn. Gengi krónunnar verður lækkað þannig að verst reknu fyrirtækin komist á núllpunktinn. Þetta þýðir að færa þarf peninga frá heimilunum til sjávarútvegsfyrirtækjanna ofan á það sem gera þarf vegna neikvæðra áhrifa af skipulagsbreytingunum. Þannig munu skattpeningarnir sem ríkisstjórnin ætlar að endurúthluta til heimila og sveitarstjórna hverfa í viðvarandi gengislækkunum. Réttlætið í þessu minnir á hundinn þegar hann bítur í rófuna á sér. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Stjórnarflokkarnir hafa sagt að breyta þurfi stjórnkerfi fiskveiða til þess að ná þremur markmiðum: Í fyrsta lagi að tryggja réttlæti. Í öðru lagi að gera auðlindina að þjóðareign. Í þriðja lagi að flytja arðinn til fólksins. Þetta eru allt göfug markmið. Þau vekja eðlilega nokkrar spurningar: Hvað breytist í raun og veru? Hvernig verður réttlætið í samanburði við óréttlætið sem sagt er að ríki. Hvernig finnur þjóðin að hún á meira í auðlindinni en áður? Hvað fá heimilin í sinn hlut sem þau njóta ekki í dag? Vegna þess að auðlindin er takmörkuð verður aldrei unnt að leyfa öllum að veiða sem vilja. Ríkisstjórnin telur hins vegar að því fleiri sem fá að veiða því meira verði réttlætið. Ef við föllumst á þetta þarf að svara því hversu mikil fjölgunin þarf að vera til að fullnægja réttlætinu. Þeirri spurningu er hins vegar ekki svarað í frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Næsta spurning er þá: Hvað kostar að ná réttlætinu fram með þessum hætti? Svarið við þeirri spurningu liggur í augum uppi. Með því að heildaraflinn er sá sami kemur minna í hlut hvers og eins. Ágóði einstakra fyrirtækja minnkar og tekjur hvers sjómanns lækka. Ekki er öldungis víst að allir sjái réttlætið í því. En svar ríkisstjórnarinnar er einfalt: Laun sjómanna þurfa ekki að lækka í krónum talið. Það má leysa með því að lækka gengi krónunnar. Fjármunir verða þá fluttir frá heimilunum til sjávarútvegsfyrirtækjanna. Kaupmáttur allra heimila í landinu rýrnar.Kostnaðurinn við réttlætið Með öðrum orðum: Kostnaðurinn við réttlætið er kaupmáttarrýrnun heimilanna. Þetta er það sem forseti Alþýðusambandsins var í vikunni að brýna menn á að koma í veg fyrir. Hann skilur ekki réttlæti ríkisstjórnarinnar. Ranglæti núverandi kerfis er að mati ríkisstjórnarinnar fólgið í því að hér veiða færri skip og færri sjómenn meiri afla en gengur og gerist meðal annarra þjóða. Afleiðingin af því eru hærri tekjur hvers sjómanns og meiri arður fyrir hverja útgerð. Þetta stuðlar að hærra gengi krónunnar en ella og hjálpar þannig til við að halda uppi kaupmætti heimilanna. Enn er ekki ljóst hversu langt ríkisstjórnin ætlar að ganga í því að auka réttlætið með því að fjölga veiðiskipum og sjómönnum. Fjölgi þeim um fjórðung er það samt svo að meira en 99 prósent landsmanna munu ekki finna beint fyrir auknu réttlæti nema í kjararýrnun. Þá er það spurning hverju skilgreining í lögum um þjóðareign breytir út frá réttlætissjónarmiði. Með því að sams konar skilgreining er í lögum og hefur verið í áratugi verður ekki séð að heimilin finni beint fyrir því ákvæði. Næst er þá spurningin hvernig úthlutunarpottar og tímatakmörk á veiðileyfum snerta 99 prósentin sem ekki fá ný störf við breytinguna. Því er fljótsvarað: Sá hluti þjóðarinnar finnur ekki fyrir neinni breytingu og fær ekkert í sinn hlut sem skilgreindur eigandi auðlindarinnar. Þegar öllu er á botninn hvolft nær réttlætið aðeins til þeirra sem fá nýjar veiðiheimildir og ný störf. Segja má að sérhagsmunir þeirra fáu séu réttlætið sem ríkisstjórnin er að berjast fyrir.Fæst réttlæti með hærri skatti? Þá er spurning hvort sú staðhæfing er rétt að stóraukin skattheimta sem Alþingi sér síðan um að dreifa út á ný skapi það almenna réttlæti sem allir þrá? Að hluta til svara lögmál hagfræðinnar þessari spurningu en að öðrum hluta ræður ólíkt tilfinningamat. Fyrst er á það að líta að óhagkvæmara stjórnkerfi dregur úr arðsemi og minnkar skattstofninn. Eins og áform ríkisstjórnarinnar eru nú á að taka að meðaltali nær allan hagnað fyrirtækjanna í ríkissjóð miðað við núverandi hagkvæmni. Það segir sig sjálft að fá þeirra munu starfa áfram eftir það. Þess vegna mun ríkisstjórnin gefa eftir og lækka skatthlutfallið. En réttlætið ætti þá eftir kenningunni að minnka í sama hlutfalli. Sú eftirgjöf mun fækka þeim fyrirtækjum sem leggja upp laupana. Eigi að síður mun ráðagerðin draga mjög þrótt úr atvinnugreininni. Hvaða svar á ríkisstjórnin þegar stór hluti fyrirtækjanna sýnir halla á rekstri? Hún lætur þau ekki fara á hausinn. Gengi krónunnar verður lækkað þannig að verst reknu fyrirtækin komist á núllpunktinn. Þetta þýðir að færa þarf peninga frá heimilunum til sjávarútvegsfyrirtækjanna ofan á það sem gera þarf vegna neikvæðra áhrifa af skipulagsbreytingunum. Þannig munu skattpeningarnir sem ríkisstjórnin ætlar að endurúthluta til heimila og sveitarstjórna hverfa í viðvarandi gengislækkunum. Réttlætið í þessu minnir á hundinn þegar hann bítur í rófuna á sér.