Körfubolti

Bara gott að hiksta aðeins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir og Birna Valgarðsdóttir með deildarmeistarabikarinn.
Pálína Gunnlaugsdóttir og Birna Valgarðsdóttir með deildarmeistarabikarinn. Mynd/ÓskarÓ.
Keflavíkurkonur tóku við deildarmeistaratitlinum eftir öruggan 73-40 sigur á KR í lokaumferðinni á laugardaginn. Þá kom einnig í ljós að Keflavík fær Hauka í undanúrslitum úrslitakeppninnar en Njarðvík glímir við Snæfell.

Keflavík tapaði 3 af 5 leikjum sínum á lokasprettinum en fyrirliðinn Birna Valgarðsdóttir hefur ekki áhyggjur. „Þetta er búið að vera upp og niður hjá okkur í vetur en vonandi er þetta bara upp á við núna. Við þurftum að hafa fyrir þessu í vetur og vorum í raun heppnar í lokin að þetta datt okkar megin. Ég held að það sé bara gott fyrir okkur að hiksta aðeins fyrir úrslitakeppnina. Núna förum við bara að einbeita okkur að úrslitakeppninni og setjum vonandi í fimmta gírinn," sagði Birna.

Falur Harðarson fagnar því að vera með heimavallarrétt alla leið. „Það hljómar mjög vel. Okkur líður mjög vel á heimavelli og þetta er mjög dýrmætt fyrir okkur að ná þessum deildarmeistaratitli. Úrslitakeppnin á að vera erfið og ég hef sagt það áður að það á enginn þessa bikara. Það er bara það lið sem vill taka þá sem tekur þá," sagði Falur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×