Fastir pennar

Þið eruð næst

Guðmundur Andri Thorsson. skrifar
Ég ímynda mér að heim til mín komi maður til þess að gera við þvottavélina hjá mér. Þetta er viðkunnanlegur maður og það er gaman að spjalla við hann. Hann klárar verkið með glæsibrag og sýnir mér hvernig þvottavélin virkar sem ný. Og ég segi: Þetta er alveg frábært hjá þér og svo var líka svo gaman að spjalla við þig. Veistu, ég er svo ánægður með þessa heimsókn þína að ég er hreinlega að hugsa um að borga þér fyrir verkið …

Tæknin hefur gert okkur kleift að ná með erindi okkar til miklu fleira fólks en forfeður okkar og formæður vissu að væri til. Það má jafnvel tala um nýja tegund af mannkyni – hinn sítengda mann; við erum með heimstorgin í kjöltunni þar sem við sitjum í sófanum heima og getum nánast náð sambandi við þann sem okkur sýnist, séð það sem okkur sýnist, hlustað á alla tónlist í heimi ef okkur langar. Það þarf ekki að hafa mörg orð um tækifærin sem skapandi fólki gefast við þær aðstæður að ná til heimsins með erindi sín. En sá böggull fylgir skammrifi að æ fleiri listamenn eru í þeirri stöðu að eiga það undir geðþótta og velþóknun neytendanna hvort þeir fái greidda peninga fyrir sköpunarverk sín. Á móti má vissulega segja að peningar séu ofmetnir og til þess fallnir að afvegaleiða fólk og að sönn list verði aldrei mæld á svo ómerkilegan mælikvarða sem peningar eru og að þegar listaverkið sé svipt vörueðli sínu sé það loksins frjálst í heiminum.

Gott og vel. Á listamönnum dynja að minnsta kosti sífelldar kröfur um að gefa eftir réttinn til að fá arð af vinnu sinni. Þessar kröfur eru settar fram í nafni réttlætisins og lýðræðisins og tjáningarfrelsisins en einkum þó framtíðarinnar. Það er erfitt hlutskipti að vera andvígur framtíðinni. Hún er eitthvað svo óhjákvæmileg.

En hvað sem henni líður, og réttlætinu og lýðræðinu og hinu illa eðli vörunnar, þá stendur listamaðurinn nú á götuhornum heimsins og fremur sínar kúnstir með hattkúf fyrir framan sig í þeirri von að vegfarendur hrífist svo að þeir láti smámynt af hendi rakna. Í þeirri stöðu felst auðvitað ákveðið frelsi en á einhverju verður fólk að lifa, meira að segja listamenn. Og það liggur misvel fyrir fólki að gera sig viðkunnanlegt á torgum – og raunar liggur það alveg sérstaklega misvel fyrir listamönnum að vera viðkunnanlegir. Því að þegar það er alveg undir viðtakandanum komið hvort hann kýs að greiða listamanninum fyrir þá sköpun sem hann hefur þegið af honum þá segir það sig eiginlega sjálft að það þurfa að kvikna jákvæðar kenndir hjá viðtakandanum í garð listamannsins: það er ekki nóg að viðtakandinn hrífist af listaverkinu eða að listaverkið breyti hugsun hans – viðtakandinn þarf að hugsa á þann hátt til sjálfs listamannsins að honum finnist taka því að borga honum, hann þarf hreinlega að muna eftir því: þá þarf hann annað hvort að kunna alveg sérstaklega vel við listamanninn af einhverjum ástæðum og hugsa út í að hann þurfi nú að lifa eins og aðrir – eða: hann þarf að vorkenna listamanninum, sjá aumur á honum og henda til hans smámynt svo sem eins og í gustukaskyni. Og listamaðurinn – hvort sem hann er meðvitaður um það eður ei – hyllist til þess að gera sig viðkunnanlegan, fer smám saman nánast að smjaðra fyrir viðtakanda sínum. Nema hann hafi framfæri sitt af öðru.

Og nú glymur rithöfundum þessi klukka: þið eruð næst. Þegar kannanir leiða í ljós að læsi sívaxandi hóps drengja er ábótavant rjúka skólar upp til handa og fóta til að finna lausnina. Engum virðist detta í hug að ef til vill sé ástæða til að laga sjálfa lestrarkennsluna. Gagnvart vanda hafa Íslendingar ævinlega eina lausn: að byggja hús. Og sé það ekki hægt þá er bara eftir hin lausnin: að kaupa græju. Til að vinna bug á útbreiddu ólæsi drengja er þannig leitað tæknilegra lausna, þeim eru gefnar lesvélar og liggja í loftinu ósagðar væntingar um að vélarnar muni þá lesa fyrir krakkana. Það eru hins vegar ekki til peningar fyrir bókum á skólabókasöfnin.

Og nú er sagt við rithöfundana: þið eruð næst. Játið ykkur sigruð. Setjið sögurnar ykkar og ljóðin bara á netið og leyfið öllum að hlaða niður að vild og greiða að vild. Maður er alltaf að heyra í fólki sem nennir ekki að lesa bækur og segist vera framtíðin – gerir eigin leti við bóklestur að almennri reglu og eiginlega kröfu. Samt er það svo að fyrir hver jól hér á landi seljast stór upplög af alls konar bókum sem fólk gefur hvert öðru samkvæmt þessum fallega sið: Mér finnst þú vera svona manneskja sem les bækur eftir Vigdísi Grímsdóttur; mér finnst þú eiga skilið að fá ljóð eftir Þorstein frá Hamri – og svo framvegis. Og sérhver bók hefur áru. Árið um kring gefum við út alls konar bækur í stórum upplögum, skáldsögur, matreiðslubækur, hryllingssögur, meira að segja smásagnasöfn. Og fólk kaupir þessar bækur í stórum stíl, handa sér og öðrum, það ræðir þær fram og aftur, býsnast yfir dómum um þær, hugsar um þær. Hví skyldu höfundar hraða sér á vit þeirrar framtíðar þar sem þeir njóta ekki afrakstursins af sköpun sinni heldur bara tækjaframleiðendur?

Bókin er afurð markaðssamfélagsins, í eðli sínu vara sem gerð er úr orðum og pappír og á fyrir sér lengri framtíð en hugsjónamenn um bókleysi dreymir um. En „bókfellið velkist og stafirnir fyrnast og fúna". Rétt eins og tónlistin lifði af dauða kassettutækisins þá mun sagnalistin líka lifa af dauða ipadsins. Sagnalistin mun meira að segja lifa bókina og allan þann iðnað sem henni fylgir.

Listin mun lifa með manninum þann afmarkaða tíma sem hann hefur mælt sér á þessari jörð. Það er grunnþörf að skapa og njóta listar – sagnalistar, tónlistar, myndlistar, verka sem maðurinn smíðar með höndum sínum og huga. Kannski tekst mönnunum að koma sér niður á þjóðskipulag sem snýst ekki um peninga og samkeppni heldur frelsi og jöfnuð og sátt við Móður Jörð – einhvern tímann – þarna úti í framtíðinni – og þá fremjum við list allan daginn handa hvert öðru og okkur sjálfum og guðdóminum; en þangað til það gerist er ekki nema sanngjarnt að listamenn fái greitt fyrir framlag sitt til tilverunnar.






×