Körfubolti

Bryndís er ekki með slitið krossband en Helga er úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bryndís Guðmundsdóttir kemur inn á ný eftir 3 til 4 vikur.
Bryndís Guðmundsdóttir kemur inn á ný eftir 3 til 4 vikur. Mynd/Stefán
KR verður án tveggja lykilmanna á næstunni en liðið stendur í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Varafyrirliðinn Helga Einarsdóttir verður ekkert meira með á tímabilinu vegna meiðsla í baki og Bryndís Guðmundsdóttir missir af næstu þremur til fjórum vikum.

Meiðsli Bryndísar voru samt ekki eins alvarleg og óttast var. Hún meiddist á sama hné og hún sleit krossband fyrir nokkrum árum en fékk þær jákvæðu fréttir í gær að krossbandið væri heilt.

„Ég verð ekki með næstu þrjár til fjórar vikurnar. Það var mikill léttir að krossbandið er í lagi. Þetta er auðvitað pirrandi en manni finnst þessi meiðsli ekki vera neitt miðað við hitt. Ég varð því mjög fegin," sagði Bryndís og bætti við: „Ég má bara hjóla og synda næstu vikurnar."

„Helga er líka alveg frá en það kom í ljós í dag að hún verður ekki meira með á tímabilinu," sagði Bryndís um varafyrirliðann Helgu Einarsdóttur.

„Það vantar tvo stóra hlekki í liðið núna þannig að nú er spurning hvað verður gert. Ef við ætlum okkur í fyrsta lagi að komast í úrslitakeppnina verða menn eins og Böðvar að fara að skoða eitthvað fyrir okkur," sagði Bryndís og beindi orðum sínum til Böðvars Guðjónssonar, formanns körfuknattleiksdeildar KR. KR er eina liðið í deildinni sem hefur bara einn erlendan leikmann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×