Háflug og fullveldi Þorsteinn Pálsson skrifar 28. janúar 2012 06:00 Þegar Benedikt Sveinsson flutti frumvarp á Alþingi um stofnun háskóla þótti ýmsum nóg um hátt flug þingmannsins. Það minnti Grím Thomsen til að mynda á flug valsins þegar hann er kallaður fálki. Nú bregður svo við að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra telur að fullveldi þjóðarinnar sé í húfi vegna háflugs opinberra starfsmanna til Brussel. Kenning ráðherrans er sú að opinberir starfsmenn sem fara á fundi í aðalstöðvum Evrópusambandsins ánetjist svo flugferðum, hótelgistingum og dagpeningum að þeir vilji ólmir fórna fullveldi landsins fyrir þess háttar persónulegt makræði. Forystumenn opinberra starfsmanna telja þetta vera tilhæfulausa aðdróttun og móðgun. Vandinn er sá að þetta er ein af þeim fullyrðingum sem vinsælar eru í pólitískri umræðu fyrir þá sök að enginn fótur þarf að vera fyrir þeim því útilokað er að afsanna þær. Forystumenn opinberra starfsmanna geta ekki hrakið álit ráðherrans með öðru móti en að ábyrgjast drengskap og heiður hvers einstaks opinbers starfsmanns sem hér á hlut að máli. Það er ekki einfalt. Það spaugilega við staðhæfingu ráðherrans er að þáttur í embættisskyldum hans er að sitja slíka fundi eða láta sækja þá í sínu nafni. Reyndar er það svo að hann er eini íslenski ráðherrann sem á fastan seturétt á ráðherrafundum Evrópusambandsins vegna Schengenaðildarinnar. Ráðherrann telur hins vegar að sjálfum sé honum ekki hætta búin að ánetjast fíkn dagpeninganna. Það eru bara þeir sem ferðast með honum eða fyrir hann sem eru í áhættuflokki. Eftiröpun Hin hliðin á ummælum innanríkisráðherrans veit að þeirri staðreynd að þekking er undirstaða ákvarðana og ríkur þáttur í virku lýðræði. Þungamiðjan í málflutningi andstæðinga frekara Evrópusamstarfs felst í því að önnur miðlun upplýsinga en þeir sjálfir standa fyrir sé landinu hættuleg. Kenningin um dagpeningafíknina er sett fram til að minna á að freistingarnar geta borið skynsemina ofurliði. Þannig er aðeins unnt að treysta fáum útvöldum til þess að fara til Brussel og meðtaka upplýsingar og miðla til fjöldans án þess að ginningin rugli dómgreindina. Þetta er ekki nýtt í íslenskri pólitík. Sósíalistar gáfu út dagblaðið Þjóðviljann í áratugi. Margir muna þá sögu en aðrir geta lesið sér til fróðleiks að þar var stílæfingum af þessu tagi beint gegn stjórnmálamönnum og embættismönnum sem höfðu samskipti við höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins og forystumenn aðildarríkja þess. Satt best að segja er eftiröpunin oft og tíðum svo nákvæm að spurningar gætu vaknað um höfundarrétt. Samtök um vestræna samvinnu sáu um rekstur upplýsingaskrifstofu fyrir Atlantshafsbandalagið. Á hennar vegum voru skipulagðar fræðsluferðir til höfuðstöðvanna. Andstæðingar Atlantshafsbandalagsins áttu ógjarnan nógu sterk orð til að lýsa því hvernig óvinir þjóðarinnar sem sátu á fleti fyrir suður í Brussel notuðu veislugleðina til að heilaþvo þá sem þar bar að garði. Á þessum tíma sáu talsmenn sósíalista engan þjóðhollan mann eiga réttmætt erindi til Brussel eða Washington. Engir þóttu halda á sönnum málstað Íslands nema þeir sem andvígir voru samstarfi við vestrænar þjóðir. Nú er þessi sami söngur byrjaður aftur vegna Evrópusambandsins að hálfu leyti undir öfugum pólitískum formerkjum og á síðum þess dagblaðs sem fyrrum var í vörninni andspænis þessum málflutningi. Góðir Íslendingar Þó að andstæðingar aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu hafi á sinni tíð talið sjálfum sér trú um að þeir væru þeir einu sem talist gætu góðir Íslendingar keypti þjóðin aldrei þann málflutning. Hvernig kaupin gerast á eyrinni í þeirri umræðu sem nú fer fram er ekki ljóst. En gildi málflutnings af þessum toga er eftir sem áður það sama. Það er mikið veikleikamerki í málflutningi þeirra sem andvígir eru frekara Evrópusamstarfi að vilja ekki ræða samanburð á hruni krónunnar og vanda evruríkjanna. Á sama hátt er það veikleiki að geta ekki viðurkennt mótherja sína sem jafn góða Íslendinga. Og innanríkisráðherrann sýndi þriðja veikleikann með því að halda því fram að sumir séu verðugir þess að eiga samtöl í Brussel en aðrir ekki. Sannarlega getur það verið hluti af mælskulist að slá á strengi tilfinninganna. Það er hins vegar engin list að draga menn í dilka með meðulum eins og öfund og tortryggni. Í dag þykja ummæli Gríms Thomsen um háskólahugmyndina fálkaleg. Síðar kemur á daginn hvort ummælum innanríkisráðherrans um flugferðir opinberra starfsmanna þykir svipa til valsins þegar hann er kallaður fálki. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Skoðanir Þorsteinn Pálsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Þegar Benedikt Sveinsson flutti frumvarp á Alþingi um stofnun háskóla þótti ýmsum nóg um hátt flug þingmannsins. Það minnti Grím Thomsen til að mynda á flug valsins þegar hann er kallaður fálki. Nú bregður svo við að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra telur að fullveldi þjóðarinnar sé í húfi vegna háflugs opinberra starfsmanna til Brussel. Kenning ráðherrans er sú að opinberir starfsmenn sem fara á fundi í aðalstöðvum Evrópusambandsins ánetjist svo flugferðum, hótelgistingum og dagpeningum að þeir vilji ólmir fórna fullveldi landsins fyrir þess háttar persónulegt makræði. Forystumenn opinberra starfsmanna telja þetta vera tilhæfulausa aðdróttun og móðgun. Vandinn er sá að þetta er ein af þeim fullyrðingum sem vinsælar eru í pólitískri umræðu fyrir þá sök að enginn fótur þarf að vera fyrir þeim því útilokað er að afsanna þær. Forystumenn opinberra starfsmanna geta ekki hrakið álit ráðherrans með öðru móti en að ábyrgjast drengskap og heiður hvers einstaks opinbers starfsmanns sem hér á hlut að máli. Það er ekki einfalt. Það spaugilega við staðhæfingu ráðherrans er að þáttur í embættisskyldum hans er að sitja slíka fundi eða láta sækja þá í sínu nafni. Reyndar er það svo að hann er eini íslenski ráðherrann sem á fastan seturétt á ráðherrafundum Evrópusambandsins vegna Schengenaðildarinnar. Ráðherrann telur hins vegar að sjálfum sé honum ekki hætta búin að ánetjast fíkn dagpeninganna. Það eru bara þeir sem ferðast með honum eða fyrir hann sem eru í áhættuflokki. Eftiröpun Hin hliðin á ummælum innanríkisráðherrans veit að þeirri staðreynd að þekking er undirstaða ákvarðana og ríkur þáttur í virku lýðræði. Þungamiðjan í málflutningi andstæðinga frekara Evrópusamstarfs felst í því að önnur miðlun upplýsinga en þeir sjálfir standa fyrir sé landinu hættuleg. Kenningin um dagpeningafíknina er sett fram til að minna á að freistingarnar geta borið skynsemina ofurliði. Þannig er aðeins unnt að treysta fáum útvöldum til þess að fara til Brussel og meðtaka upplýsingar og miðla til fjöldans án þess að ginningin rugli dómgreindina. Þetta er ekki nýtt í íslenskri pólitík. Sósíalistar gáfu út dagblaðið Þjóðviljann í áratugi. Margir muna þá sögu en aðrir geta lesið sér til fróðleiks að þar var stílæfingum af þessu tagi beint gegn stjórnmálamönnum og embættismönnum sem höfðu samskipti við höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins og forystumenn aðildarríkja þess. Satt best að segja er eftiröpunin oft og tíðum svo nákvæm að spurningar gætu vaknað um höfundarrétt. Samtök um vestræna samvinnu sáu um rekstur upplýsingaskrifstofu fyrir Atlantshafsbandalagið. Á hennar vegum voru skipulagðar fræðsluferðir til höfuðstöðvanna. Andstæðingar Atlantshafsbandalagsins áttu ógjarnan nógu sterk orð til að lýsa því hvernig óvinir þjóðarinnar sem sátu á fleti fyrir suður í Brussel notuðu veislugleðina til að heilaþvo þá sem þar bar að garði. Á þessum tíma sáu talsmenn sósíalista engan þjóðhollan mann eiga réttmætt erindi til Brussel eða Washington. Engir þóttu halda á sönnum málstað Íslands nema þeir sem andvígir voru samstarfi við vestrænar þjóðir. Nú er þessi sami söngur byrjaður aftur vegna Evrópusambandsins að hálfu leyti undir öfugum pólitískum formerkjum og á síðum þess dagblaðs sem fyrrum var í vörninni andspænis þessum málflutningi. Góðir Íslendingar Þó að andstæðingar aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu hafi á sinni tíð talið sjálfum sér trú um að þeir væru þeir einu sem talist gætu góðir Íslendingar keypti þjóðin aldrei þann málflutning. Hvernig kaupin gerast á eyrinni í þeirri umræðu sem nú fer fram er ekki ljóst. En gildi málflutnings af þessum toga er eftir sem áður það sama. Það er mikið veikleikamerki í málflutningi þeirra sem andvígir eru frekara Evrópusamstarfi að vilja ekki ræða samanburð á hruni krónunnar og vanda evruríkjanna. Á sama hátt er það veikleiki að geta ekki viðurkennt mótherja sína sem jafn góða Íslendinga. Og innanríkisráðherrann sýndi þriðja veikleikann með því að halda því fram að sumir séu verðugir þess að eiga samtöl í Brussel en aðrir ekki. Sannarlega getur það verið hluti af mælskulist að slá á strengi tilfinninganna. Það er hins vegar engin list að draga menn í dilka með meðulum eins og öfund og tortryggni. Í dag þykja ummæli Gríms Thomsen um háskólahugmyndina fálkaleg. Síðar kemur á daginn hvort ummælum innanríkisráðherrans um flugferðir opinberra starfsmanna þykir svipa til valsins þegar hann er kallaður fálki.