Fastir pennar

Samkomuhús Reykvíkinga

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Verði hús vinsælt í Reykjavík fer það rakleitt á válista. Ekkert er húsi skeinuhættara í þessari borg en að margir taki ástfóstri við það og fólki líði vel þar. Þá renna þær á lyktina hinar mennsku veggjalýs sem nærast á innviðum húsa og samfélags.

NýtingarhlutfallsferlíkiFallegt en þó einkum sögufrægt hús í Reykjavík á það ævinlega á hættu að lenda í eigu manns sem sér það ekki heldur eitthvað allt annað – helst eitthvað sem enginn annar vill sjá. Oft hefur það gerst á umliðnum árum í gömlu Reykjavík að einhver náungi eignast sögufrægt hús með það beinlínis fyrir augum að granda því til að reisa þar í staðinn forógnar-kassa með ógurlegu nýtingarhlutfalli svo að hann fái upp í kostnaðinn við að kaupa húsið sem honum er svo í nöp við, vegna þess að það var svo dýrt – af því að það var svo vinsælt. Þetta er ekki bara spurning um peningagræðgi. Sá sem ræður yfir húsi og eyðir því finnur líka til þess að hann hefur völd.

Á síðustu áratugum hefur vaxið fram stétt manna sem iðja við það að eignast falleg hús á eftirsóknarverðum stöðum, láta þau grotna niður, fylla þau af ógæfufólki, kveikja í þeim hvað eftir annað, misbjóða þeim á alla lund og rífa þau loks í fyrrgreindu augnamiði: að reisa eitthvað nýtingarhlutfallsferlíki í stað húss. Þessir menn eru húsum það sem Fonspálmarnir voru fyrirtækjum, einhvers konar verðmætasugur.

Undarleg sjálfseyðingarhvöt hefur löngum herjað á Reykjavík sem borg; skeytingarleysi um sögu borgarinnar og menningu, áhugaleysi um mannlífið, hálfgerður and-úrbanismi. Áratugum saman var borginni stjórnað af mönnum sem höfðu lífsviðurværi sitt af því að selja bíla og bensín og sáu sér hag í því að láta fólk aka sem allra lengst og mest – en landinu var stjórnað af mönnum sem var hreinlega í nöp við þennan bæ og töldu vöxt hans og viðgang einhvers konar slys í annars vel heppnaðri þjóðarsögu, allt frá Píningsdómi 1490 þegar þéttbýlismyndun var bönnuð af íslenskum stórbændum.

Ráðamenn höfðu margir beinlínis þá hugsjón að láta rífa Bernhöftstorfuna – elstu heillegu götumyndina í hjarta Reykjavíkur - og setja þar í staðinn nokkurn veginn hvað sem var, bara eitthvað nógu ljótt, því að ekkert var fagurt nema sveitin heima.

Hús með sálSum sé: Þetta fer maður strax að hugsa við fréttir af draumum lóðareiganda í hjarta Reykjavíkur um að reisa þar 4500 fm hótel og rífa Hótel Vík og fallega gula húsið við Aðalstræti 7 og Sjálfstæðishúsið gamla, þó að framhliðin á Austurvelli fái að halda sér.

Þetta eru gömul og ástsæl hús: burt með þau og reisum nýtingarhlutfallsferlíki í staðinn. Það renna á mann tvær grímur gagnvart svona áformum, ekki síst fréttum af hugsanlegu niðurrifi Gamla Sigtúns, eða NASA eins og staðurinn hefur verið nefndur frá því að hann gekk í endurnýju lífdaganna eftir að hafa verið árum saman notaður sem mötuneyti fyrir starfsmenn Pósts & Síma. Þetta er samhengið. Kannski er það ekki sanngjarnt. Kannski stendur ekki einu sinni til að rústa NASA til að reisa sálarlausan kassa með gamla kvennaskólann sem framhlið. Kannski gengur eigandanum gott eitt til og honum er í mun að þetta svæði fái að njóta sín sem best í framtíðinni. Við skulum vona það.

Eru menningarverðmæti fólgin í NASA? Þetta er víst engin Harpa hvað varðar hljómburð og íburð. Og innréttingarnar eru ekki það nýjasta af öllu nýjustu nýju. Þarna er ekki stærsta ljósakerfi Norðurlanda, stærsta dansgólf Evrópu eða stærsta fatahengi heims. Þarna er ekki stærsta neitt neins – en þarna er aftur á móti rúmgóður salur, frábært svið, stórt dansgólf, afbragðs hljómburður, og það sem mest er um vert: í húsinu er sál. Þetta er Samkomuhús Reykvíkinga. Það blasir við manni um leið og maður kemur þarna inn: öll samfélög hér á landi til sjávar og sveita með sjálfsvirðingu eiga sitt Samkomuhús og þetta er Hlégarður Reykvíkinga, þeirra Skjólbrekka, þeirra Sjalli. Því að þarna í þessum húsakynnum sem eru í senn glæsileg, virðuleg og svolítið snjáð hafa kynslóðir Reykvíkinga dansað við undirleik tónlistarmanna, vangað, kjaftað úti undir vegg, þráttað og þruglað og drukkið asna á barnum, glaðst og glatt.

Hús er ekki bara hús, ekki bara skjól, veggir, leiðslur, tréverk. Hús er andrúmsloft sem verður til af því sem fram hefur farið þar innan veggja í tímans rás, hús er fólk, líðan þess, tilfinningar og athafnir – já og öll tónlistin.

Sá sem kemur inn á NASA rétt áður en ball byrjar heyrir eitt sekúndubrot óminn af allri tónlistinni sem þar hefur verið leikin gegnum tíðina. Og hún síast einhvern veginn inn í þann sem er að fara að leika þar um kvöldið. Þess vegna spila menn betur á NASA en annars staðar.






×