Bakþankar

Stóra áramótaheitið

Sigurður Árni Þórðarson skrifar
Þorir þú? Áramót veita tækifæri til að núllstilla og forgangsraða. Framundan er opinn tími. Hvernig getur þú notið þess tíma best, sem þér er gefinn? Ef þú lætur aðeins stjórnast af áreiti daganna og gerir ekkert annað en að bregðast við hættir þú að heyra rödd hjartans. Þá blæs viskan hjá og spekin líka. Siglandi skip þarfnast stefnu og menn þarfnast líka stjórnar á sínum lífssjó.

Ég sá fyrirlestur á vefnum um hvernig við getum breytt lífsmynstrinu til að njóta lífsins sem best. Fyrirlesarinn minnti á, að mörg okkar lifum þrískipta ævi. Fyrst koma bernsku- og námsárin, oft nærri tuttugu og fimm ár. Síðan tekur við starfsævin, sem er gjarnan fjörutíu ár ef heilsan er góð og vinnustaðir eru góðir. Síðan fylgja eftirlaunaárin og ellin. En hentar öllum þessi þrískipting ævinnar?

Fyrirlesarinn ákvað að dreifa eftirlaunaárunum á alla starfsævi sína. Fyrsta sinn fór hann á „eftirlaun" þegar hann var liðlega þrítugur og þá í eitt ár. Svo vann hann í sjö ár og þá tók við nýtt náðarár til að gera það, sem hann langaði mest til. Hann tók ákvörðun um, að taka sér alltaf ársleyfi á sjö ára fresti til íhugunar, lífsendurskoðunar, hamingjuræktar og til eflingar innri manni óháð hasar daganna. Fjárhagslega gekk betur en hann hafði búist við því gæði vinnunnar urðu meiri en áður og annars hefði orðið.

Að dreifa hleðslutíma á ævina með þessu móti krefst, að málum sé raðað í forgang. Í stað neyslu verður að spara, nýta fjármuni til andlegrar iðju fremur en kaupa hluta og eigna. Tíminn er ekki bara peningar. Tíminn er ekki heldur aðeins hinn krónólógíski tími eða hið fjórvíða tímarými. Tíminn er lifaður, er persónulegur. Hann getur verið angistarfullur sorgartími, stórkostlegur barneignatími, áhyggjutími eða tími algleymis og hamingju. Við megum sjálf gefa tímanum merkingu. Við megum líka hugsa nýjar hugsanir. Hin trúarlega nálgun er að leyfa himni og heimi að faðmast og kyssast í okkar eigin lífi.

Í djúpi kristninnar er boðskapur um að Guð þorir. Kristin trú er ekki niðurnjörvaður átrúnaður hins læsta heimskerfis. Guð breytir um stefnu og tekur upp á hinu óvænta. Guð leggur sig í hættu vegna lífsins. Það er til fyrirmyndar. Þú ert vissulega vera í heimi tímans, en í þér á frelsið heima. Má bjóða þér hamingjutíma? Þorir þú að lifa vel?






×