Körfubolti

Noah hættur að nota byssufagnið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joakim Noah.
Joakim Noah. Mynd/NordicPhotos/Getty
Joakim Noah hjá Chicago Bulls hefur undanfarin tímabil fagnað körfum sínum með því að þykjast skjóta úr byssum. Noah hefur nú ákveðið að leggja byssufagnið sitt á hilluna í kjölfarið á harmleiknum í Newtown í Conneticut í Bandaríkjunum.

Joakim Noah átti góðan leik í sigri á móti Boston Celtics í vikunni þar sem að hann var með þrefalda tvennu, skorað 11 stig, tók 13 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Bandarískir blaðamenn voru fljótir að taka eftir því að byssufagnið var hvergi sjáanlegt í leiknum og spurðu hann því út í það á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Það er ekki hægt að grínast með svona hluti. Það eru alltof margir að deyja útaf byssum og við erum að glíma við stórt vandamál. Ég er með þessu að reyna að sýna smá samúð vegna þess sem er í gangi," sagði Joakim Noah.

Joakim Noah byrjaði á þessu byssufagni sínu tímabilið 2010-11. „Ég setti niður stökkskot í andlitið á Keith Bogans og sýndi honum byssurnar í kjölfarið. Þetta átti að vera grín en við erum í þannig aðstæðum í dag að þetta getur ekki talist fyndið lengur," sagði Noah sem tók það fram að hann sjálfur hafi aldrei átt byssu.

Tuttugu börn og sex fullornir dóu í skotárásinni í barnaskólanum í Newtown.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×