Körfubolti

Miami fór létt með meiðslum hrjáð lið Dallas | Sigurganga Oklahoma stöðvuð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
LeBron James
LeBron James Nordicphotos/getty
Miami Heat vann nokkuð þægilegan sigur á Dallas Mavericks í stórleik næturinnar í NBA-körfuboltanum. Þá batt Minnesota Timberwolves enda á tólf leikja sigurgöngu Oklahoma Thunder.

Miami Heat tók strax völdin í heimsókn sinni til Dallas í nótt. LeBron James skoraði 24 stig en fjölmargar körfurnar komu eftir frábærar sendingar Dwyane Wade. Miami leiddi um tíma með 36 stigum en LeBron og Wade fóru á kostum.

LeBron hefur nú skorað tuttugu stig eða meira í öllum 23 leikjum tímabilsins. Enginn hefur náð því afreki í 23 ár eða síðan Karl Malone gerði það fyrstu 24 leiki tímabilsins 1989-1990.

Dirk Nowitzki er enn frá vegna meiðsla auk þess sem Derek Fisher, Elton Brand og Brandan Wright voru ekki með af sömu ástæðu. Það munar um minna.

Oklahoma hafði unnið tólf leiki í röð þegar liðið mætti í kuldann í Minnesota. J.J. Barea fór á kostum í fjórða leikhluta þegar Timberwolves seig fram úr og tryggði sér heimasigur 99-93.

Fjórtán af átján stigum Barea komu í fjórða leikhluta og minntu á frammistöðu hans með Dallas í úrslitakeppninni fyrir tveimur árum. Kevin Love átti einnig frábæran leik og skoraði 28 stig auk þess að hirða ellefu fráköst.

Kevin Durant átti enn einn stórleikinn hjá Þrumunni frá Oklahoma. Durant skoraði 33 stig en það dugði ekki til.

Úrslitin í nótt

Minnesota Timberwolves 99-93 Oklahoma Thunder

Dallas Mavericks 95-110 Miami Heat

Portland Trail Blazers 101-93 Denver Nuggets

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×