Körfubolti

Flautukarfa Smith tryggði Knicks sigur | Fjörutíu stig Kobe dugðu ekki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/getty
J.R. Smith var hetja New York Knicks sem vann ótrúlegan tveggja stiga sigur á Phoenix Suns í NBA körfuboltanum í nótt. Fjörutíu stig Kobe Bryant í Denver dugðu Lakers ekki til sigurs.

Knicks var án Carmelo Anthony og Raymond Felton þegar liðið heimsótti Phoenix Suns í Arizona í nótt. Heimamenn höfðu tveggja stiga forskot þegar skammt var til leiksloka en þá tók J.R. Smith til sinna ráða.

Smith jafnaði með fallegu stökkskoti þegar rúmar tíu sekúndur lifðu leiks og endurtók leikinn í þann mund er lokaflautið gall. Lokatölurnar 99-97 gestunum frá New York í vil.

„Ég veit ekki hvaða orð þú vilt nota en hann elskar þessi augnablik," sagði Jason Kidd, leikstjórnandi Knicks, um tilþrif liðsfélaga síns.

Sigurkarfan kom eftir innkast frá Kidd eftir að Suns hafði tapað boltanum þegar sekúnda var eftir af leiktímanum.

Jared Dudley skoraði 36 stig fyrir Phoenix, hans hæsta stigaskor, og kom meðal annars heimamönnum í 97-95 með tveimur vítaskotum 34 sekúndum fyrir leikslok.

Caroey Brewer skoraði 27 stig fyrir Denver Nuggets sem vann góðan sigur á Los Angeles Lakers. Kobe Bryant hélt uppteknum hætti með fjörutíu stigum sem dugðu þó enn eina ferðina ekki til.

Dwight Howard var rekinn af velli í þriðja fjórðungi fyrir gróft brot. Howard var ósáttur með brottvísunina en Bryant, liðsfélagi hans, taldi um réttan dóm að ræða þótt hann teldi að Howard ætti ekki að fá leikbann.

LaMarcus Aldridge skoraði 28 stig og tók tólf fráköst í heimasigri Portland Trail Blazers á Sacramento Kings. Þá voru LeBron James (27 stig) og Dwyane Wade (29 stig) samir við sig í sigri Miami Heat á Charlotte Bobcats.

Öll úrslitin í nótt má sjá hér fyrir neðan.

Charlotte Bobcats 92-105 Miami Heat

Orlando Magic 94-97 New Orleans Hornets

Washington Wizards 84-87 Cleveland Cavaliers

Atlanta Hawks 126-19 Detroit Pistons

Milwaukee Bucks 108-93 Brooklyn Nets

Memphis Grizzlies 89-99 Philadelphia 76ers

Minnesota Timberwolves 84-87 Houston Rockets

San Antonio Spurs 100-80 Toronto Raptors

Phoenix Suns 97-99 New York Knicks

Denver Nuggets 126-114 Los Angeles Lakers

Portland Trail Blazers 109-91 Sacramento Kings

Leik Indiana Pacers og Chicago Bulls var frestað vegna snjókomu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×