Körfubolti

Brooklyn Nets búið að reka Avery Johnson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Avery Johnson.
Avery Johnson. Mynd/NordicPhotos/Getty
Avery Johnson hefur stýrt sínum síðasta leik hjá NBA-körfuboltaliðinu Brooklyn Nets en félagið lét hann taka pokann sinn í kvöld. Brooklyn Nets tapaði fimm af síðustu sex leikjum sínum undir stjórn Johnson þar á meðal 108-93 á móti Milwaukee Bucks í síðasta leik hans í nótt.

P.J. Carlesimo, aðstoðarþjálfari Avery Johnson mun taka við Brooklyn Nets liðinu tímabundið en liðið fær Charlotte Bobcats í heimsókn á morgun.

Avery Johnson er búinn að vera þjálfari Nets í rúm tvö tímabil en þegar hann tók við liðinu þá hét það New Jersey Nets. Félagið flutti í Brooklyn í sumar og vann 11 af fyrstu 15 leikjum tímabilsins.

Síðan fór að halla undan fæti og liðið hefur aðeins unnið 3 af síðustu 13 leikjum sínum. Avery Johnson stýrði Nets-liðinu alls í 176 leikjum og 116 þeirra töpuðust.

Rússinn Mikhail Prokhorov er búinn að setja mikinn pening í Brooklyn Nets liðið og liðið hefur marga frábæra leikmenn innan sinna raða. Það má því búast við að næsti þjálfari liðsins verði þekkt nafn í þjálfaraheiminum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×