Körfubolti

LeBron James íþróttamaður ársins hjá Sports Illustrated

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
LeBron með gullverðlaun sín á Ólympíuleikunum í London í sumar.
LeBron með gullverðlaun sín á Ólympíuleikunum í London í sumar. Nordicphotos/Getty
Körfuknattleiksmaðurinn LeBron James hefur verið valinn íþróttamaður ársins hjá íþróttablaðinu Sports Illustrated í Bandaríkjunum.

Árið 2012 var afar sigursælt hjá skotbakverðinum sem vann allt sem hægt var að vinna. Hann varð NBA meistari ásamt liði sínu Miami Heat, var valinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar, vann Ólympíugull með Bandaríkjunum og var valinn verðmætasti leikmaður NBA-deildarinnar.

James sagði við AP fréttastofuna að valið hefði komið honum á óvart. Ekki vegna þess að honum þætti lítið til eigin afreka koma. James taldi félagaskipti sín frá Cleveland til Miami Heat árið 2010, sem ollu miklu fjaðrafoki, geta komið í veg fyrir útnefninguna.

„Ég man eins og það hefði gerst í gær hvernig þakið féll saman þegar ég samdi við Miami Heat," sagði James. „Að sjá hvernig ég ásamt liðsfélögum mínum og öllum öðrum í kringum mig gerðum við þakið, komast hingað og taka við svo virðulegum verðlaunum er stórkostlegt," sagði James.

Þetta er í fyrsta skipti sem körfuknattleiksmaður hlýtur nafnbótina síðan 2006. Þá féll hún í skaut Dwyane Wade, liðsfélaga James hjá Miami.

Meðal fyrri verðlaunahafa má nefna Muhammad Ali, Jack Nicklaus, Wayne Gretzky, Tom Brady og Michael Phelps.

Umfjöllun Sports Illustrated um íþróttamann ársins má lesa hér.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×