Gagnrýni

Innsýn í hugarfylgsni lítilla karla

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn: Átök og uppgjör eftir Styrmi Gunnarsson.
Sjálfstæðisflokkurinn: Átök og uppgjör eftir Styrmi Gunnarsson.
Sjálfstæðisflokkurinn: Átök og uppgjör. Styrmir Gunnarsson. Veröld. Tilgangur Styrmis Gunnarssonar, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, með ritun bókarinnar "Sjálfstæðisflokkurinn: Átök og uppgjör" virðist tvenns konar. Annars vegar gerir hann tilraun til að endurskrifa söguna. Í söguskýringu Styrmis felst að Geir Hallgrímsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra, eigandi Morgunblaðsins og vinur Styrmis, sé einn merkilegasti stjórnmálamaður sem þjóðin hefur af sér alið. Í bókinni segir að Geir hafi, sem forsætisráðherra, innsiglað varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna og tryggt sigur í baráttu Íslendinga fyrir fullum yfirráðum yfir auðlindum hafsins. "Þótt ekkert annað hefði komið til, ætti þetta tvennt að duga til þess að skipa honum verðugan sess í stjórnmálasögu Íslands á síðari hluta 20. aldar." Smjaður á borð við þetta, og réttlæting á ákvörðunum sem Geir tók, eru rauði þráðurinn í bókinni. Á þessari söguskýringu eru þó augljósir annmarkar. Í formannstíð Geirs, sem stóð yfir í áratug, sat Sjálfstæðisflokkurinn sameinaður einungis eitt kjörtímabil í ríkisstjórn. Árangurinn í þingkosningunum 1978 og 1979 þótti heldur ekki upp á marga fiska og þótt flokkurinn hafi náð að safna vopnum sínum 1983 þá féll Geir út af þingi í þeim kosningum, eftir að hafa beðið afhroð í prófkjöri í aðdraganda þeirra. Hann fékk samt að sitja sem utanþingsráðherra þar til eftirmaður hans á formannsstóli ýtti honum út til að komast sjálfur í ríkisstjórn. Hins vegar veitir bókin innsýn inn í þann valdaheim sem hópur lítilla karla með mikilmennskubrjálæði bjó til. Þessir sömu karlar stýrðu, leynt og ljóst, Íslandi um áratugaskeið. Styrmir dregur ekkert undan í ótrúlegum lýsingum á samkrulli stjórnmála og fjölmiðla sem virtust hafa það að leiðarljósi að tryggja þrönga sérhagsmuni. Í bókinni eru mýmörg dæmi. Það eftirminnilegasta, og skýrasta, er frásögn af kosningafundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var í Háskólabíói í aðdraganda alþingiskosninganna 1967. Svo slæleg mæting var á fundinn að boðað var til krísufundar á heimili þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar. Fundinn sátu leiðtogar úr Sjálfstæðisflokknum, ritstjórar Morgunblaðsins og Styrmir. Þar skiptust menn á að leggja í púkk fyrirsagnir og framsetningarmöguleika sem myndu sýna fundinn í öðru ljósi en raunveruleikinn. Í bók Styrmis segir að með fréttinni hafi síðan verið birt "fjögurra dálka mynd, sem með prenttækni þeirra tíma var svo óskýr að tómleikinn í efstu sætaröðum sást illa. Í fréttinni var fullyrt, sem kannski var eins konar hvít lygi, að húsið hefði verið fullsetið". Á meðan Styrmir segir sögur af svona óeðlilegheitum, sem eiga ekkert skylt við blaðamennsku, þá segir hann inn á milli frá því að ritstjórar Morgunblaðsins hafi rekið blaðið undir formerkjum trausts og heiðarleika. Augljóst er þó að ekkert rúm er fyrir slík gildi hjá Styrmi þar sem hann viðurkennir þátttöku sína, og Morgunblaðsins, í því að blekkja vísvitandi lesendur sína í þágu annarlegra sjónarmiða. Styrmir eyðir síðan eftirmála bókarinnar í að mæra Davíð Oddsson, núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, fyrir pólitísk afrek hans. Það er kannski viðeigandi sökum þess að Davíð er ábyrgur fyrir því, á ritstjórastóli, að færa Morgunblaðið frá því að vera fréttamiðill í átt að því að vera áróðurstól í þeim stíl og það var á mektardögum Styrmis. Þá er áhugi þeirra tveggja á endurritun sögunnar mjög svipaður; úr takti við raunveruleikann og með hagsmuni sína og sinna að leiðarljósi. Styrmir Gunnarsson sér heiminn í öðrum litum en fólk flest. Í hans heimi snýst allt um plott, valdabrölt og framgang sérhagsmuna. Allt er leyfilegt. Tilgangurinn helgar meðalið. Bókin opinberar þessa sýn mjög vel og þess vegna er ákveðinn fengur í henni. Það er áhugavert að fá innsýn inn í heimsmynd sem er svo fjarri þeirri sem blasir við flestum. Áhugamenn um stjórnmál áttunda og níunda áratugarins fá líka ýmislegt fyrir sinn snúð. Þá er óupptalinn sá hópur sem er sammála Styrmi um hvernig hlutirnir eru og hvernig þeir eiga að vera. Fyrir þann þrönga hóp er þessi bók konfekt. Upphafning ómerkilegra atburða og atvika er þó leiðinlegur og langdreginn löstur á henni. Þá er fyrirmannablætið og aðdáunin á einstökum einstaklingum nánast óþægileg á köflum. Niðurstaða: Frekar þunn tilraun til að endurskrifa sögu íslenskra stjórnmála þannig að Geir Hallgrímsson sé í aðalhlutverki. Veitir þó áhugaverða innsýn inn í hugarheim höfundar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×