Körfubolti

Miami lagði San Antonio | Popovich skildi stjörnurnar eftir heima

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gregg Popovich og Dwyane Wade, ein af fjölmörgum stjörnum Miami Heat liðsins.
Gregg Popovich og Dwyane Wade, ein af fjölmörgum stjörnum Miami Heat liðsins. Nordicphotos/Getty
Frábær endasprettur Miami Heat tryggði liðinu fimm stiga heimasigur á San Antonio Spurs í NBA-körfuboltanum í nótt.

Lokatölurnar urðu 105-100 en liðsmenn Heat skoruðu tólf stig gegn tveimur á síðustu mínútum leiksins og björguðu andlitinu gegn vængbrotnu liði Spurs.

Gregg Popovich, þjálfari Spurs, tók þá eftirtektarverðu ákvörðun að skilja Tim Duncan, Tony Parker, Manu Ginobili og Danny Green eftir heima í Texas. Þjálfarinn sagði ákvörðunina vera í þágu liðsins en hún var harðlega gagnrýnd af David Stern, einvaldi NBA-deildarinnar.

„Ákvörðunin er óásættanleg," sagði Stern. Hann bað stuðningsmenn afsökunar og sagði að gestaliðinu yrði refsað.

Stjörnulaust lið Spurs leiddi með sjö stigum þegar tæpar fimm mínútur lifðu leiks og munurinn var enn fimm stig þegar rúmar tvær mínútur lifðu. Þá tóku stjörnurnar í Heat með Ray Allen í fararbroddi við sér og tryggðu sér sigur.

LeBron James var stigahæstur heimamanna með 23 stig auk þess að taka níu fráköst. Popovich varði ákvörðun sína, um að skilja lykilmenn sína eftir heima í Texas, fyrir leikinn.

„Allir þurfa að taka ákvarðarnir sem snúa að leikjaniðurröðun, hvaða leikmenn spili, leikjum dag eftir dag, ferðalögum á ferðalög ofan og þess háttar. Í okkar tilfelli höfum við spilað ellefu útileiki í mánuðinum. Við fórum í átta daga ferðalag, svo tíu daga ferðalag og törninni lýkur með fjórum leikjum á fimm kvöldum. Ég held að það sé óskynsamlegt að nota leikmennina ef litið er til (meiðsla)sögu þeirra," sagði Popovich.

Í hinum leik næturinnar vann Golden State Warriors eins stigs heimasigur á Denver Nuggets, 106-105. Nuggets hafði átta stiga forskot fyrir lokafjórðunginn en frábær spilamennska í síðasta fjórðungnum tryggði Golden State sigur.

Kraftframherjinn David Lee var besti maður vallarins. Lee skoraði 31 stig auk þess að hirða níu fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×