Körfubolti

NBA: Kobe sá um að landa sigrinum í fyrsta leik D'Antoni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant fagnar einni af körfunum sínum í nótt.
Kobe Bryant fagnar einni af körfunum sínum í nótt. Mynd/AP
Kobe Bryant fór mikinn á lokamínútunum þegar Los Angeles Lakers vann fimm stiga sigur á Brooklyn Nets í NBA-deildinni í nótt en þetta var fyrsti leikur liðsins undir stjórn Mike D'Antoni. New York Knicks og Philadelphia 76ers unnu líka leiki sína í nótt en þá fóru aðeins þrír leikir fram.

Kobe Bryant skoraði 6 af 25 stigum sínum á síðustu tveimur mínútunum þegar Los Angeles Lakers vann 95-90 heimasigur á Brooklyn Nets. Dwight Howard var með 23 stig og 15 fráköst en hitti aðeins úr 7 af 19 vítaskotum sínum í leiknum.

Brooklyn Nets var búið að vinna fimm leiki í röð fyrir leikinn en eftir þennan sigur hefur Lakers unnið 5 af 6 leikum sínum síðan að Mike Brown var rekinn. Brook Lopez skoraði 23 stig fyrir Nets og Deron Williams var með 22 stig en Nets-liðið klikkaði á fimm af síðustu sex skotum sínum í leiknum.

Carmelo Anthony skoraði 29 stig þegar New York Knicks vann 102-80 sigur á New Orleans Hornets og hefur þar með unnið 8 af fyrstu 9 leikjum sínum. Raymond Felton og J.R. Smith voru báðir með fimmtán stig en New York liðið skoraði fjórtán þriggja stiga körfur í leiknum. Ryan Anderson var stigahæstur hjá Hornets með 15 stig en liðið tapaði þarna fjórða leiknum í röð.

Jason Richardson skoraði 6 af 21 stigi sínu í fjórða leikhluta þegar Philadelphia 76ers vann 106-98 endurkomusigur á Toronto Raptors. Toronto var 87-80 yfir snemma í fjórða leikhlutanum. Nick Young kom með 23 stig af bekknum hjá 76ers, Jrue Holiday var með 19 stig og 12 stoðsendingar og Thad Young skoraði 18 stig í þriðja sigri Philadelphia í röð. DeMar DeRozan skoraði 24 stig fyrir Toronto og Andrea Bargnan var með 22 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×