Körfubolti

Styttist í endurkomu Spánverjans Ricky Rubio

Ricky Rubio gæti leikið á ný með Minnesota Timberwolves í lok þessa árs eða byrjun þess næsta.
Ricky Rubio gæti leikið á ný með Minnesota Timberwolves í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. AP
Gengi Minnesota Timberwolves í NBA deildinni hefur ekki verið gott að undanförnu en liðið hefur tapað 5 leikjum í röð. Meiðsli lykilmanna hafa sett svip sinn á gengi Minnesota en það gæti farið að birta til hjá stuðningsmönnum Minnesota á næstu vikum. Spænski leikstjórnandinn Ricky Rubio er væntanlegur í liðið á ný en hann sleit krossband í hné í byrjun mars á þessu ári.

Talið er að Rubio gæti leikið með liðinu í lok desember eða byrjun janúar á næsta ári. Hann fer í skoðun hjá sérfræðingnum sem framkvæmdi hnéaðgerðina í þessari viku og að því loknum verður ákvörðun tekin um framhaldið.

„Ég vona að ég fái góðar fréttir en maður veit aldrei," sagði Rubio við staðarblað í Minnesota áður en hann hélt til Kaliforníu til þess að hitta sérfræðinginn.

Rick Adelman þjálfari Minnesota segir að Rubio hafi staðið sig gríðarlega vel með liðinu á þeim tíma sem hann var heill heilsu á síðasta tímabili. Þar hafi beittur varnarleikur Spánverjans komið mest á óvart en hann er þekktastur fyrir frábærar stoðsendingar og skemmtileg tilþrif í sóknarleiknum.

„Hann náði að halda sóknarleikmanninum fyrir framan sig og hafa stjórn á hlutunum í varnarleiknum. Hann var í hópi fimm efstu yfir stolna bolta í leik og hann var alltaf á réttum stað í liðsvörninni," sagði Adelman sem hefur mátt gera ýmsar breytingar á liði sínu vegna meiðsla lykilmanna á borð við Kevin Love og Ricky Rubio.

Rubio varð annar í kjörinu yfir nýliða ársins 2011-2012. Hann skoraði 10,6 stig að meðaltali í leik, gaf 8,2 stoðsendingar, stal boltanum 2,2 sinnum að meðaltali í alls 41 leik. Hann er 22 ára gamall en hefur mikla reynslu af atvinnumennsku eftir að hafa leikið með Barcelona þar sem hann lék sinn fyrsta leik sem atvinnumaður 14 ára gamall.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×