Körfubolti

NBA í nótt: Brooklyn vann borgarslaginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tyson Chandler og Deron Williams í baráttunni.
Tyson Chandler og Deron Williams í baráttunni. Mynd/AP
Brooklyn Nets hafði betur í slag New York-liðanna þegar að það lagði Knicks að velli í framlengdri viðureign í nótt, 96-89.

Þar með jafnaði Nets heildarárangur Knicks í vetur en liðin eru í 2.-3. sæti Austurdeildarinnar, einum sigri á eftir Miami Heat.

Jerry Stackhouse setti niður mikilvægan þrist þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af framlengingunni og náði Knicks aldrei að brúa bilið eftir það. Fram að því hafði leikurinn verið jafn og spennandi.

Brook Lopez var með 22 stig og ellefu fráköst og Deron Williams sextán stig og fjórtán stoðsendingar.

Hjá Knicks var Carmelo Anthony stigahæstur með 35 stig auk þess sem hann tók þrettán fráköst. Tyson Chandler var með 28 stig og tíu fráköst.

Oklahoma City vann stórsigur á Charlotte, 114-69. Staðan í hálfleik var ótrúleg en Oklahoma City hafði þá 40 stiga forystu, 64-24. Þetta er fimmta mesta forysta liðs í hálfleik frá því að skotklukkan var tekin upp í NBA-deildinni.

Kevin Durant var með átján stig og Russell Westbrook tólf stig og ellefu stoðsendingar.

Þá vann Milwaukee sigur á Chicago í æsispennandi leik, 93-92. Milwaukee lenti mest 27 stigum undir í leiknum en náði að snúa viðureigninni sér í vil.

Richard Hamilton skoraði 30 stig í leiknum en klikkaði á skoti í blálokin sem hefði tryggt Chicago sigurinn.

Úrslit næturinnar:

Brooklyn - NY Knicks 96-89

Washington - San Antonio 92-118

Detroit - Portland 108-101

Chicago - Milwaukee 92-93

Memphis - Cleveland 84-78

Oklahoma City - Charlotte 114-69

Utah - Denver 105-103

LA Clippers - New Orleans 98-105

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×