Gagnrýni

Við erum, sem sagt, manneskjur

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Fyrir Lísu eftir Steinunni Sigurðardóttur.
Fyrir Lísu eftir Steinunni Sigurðardóttur.
Fyrir Lísu

Steinunn Sigurðardóttir

BJARTUR



Að segja frá leyndarmáli sem hefur þjakað þig í áratugi getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar og ekki endilega allar jákvæðar. Það fær vinur okkar, krabbameinslæknirinn Martin Montag, að reyna á eigin skinni í bókinni Fyrir Lísu eftir Steinunni Sigurðardóttur.

Martin þekkjum við úr snilldarverkinu Jójó sem kom út í fyrra sem lauk einmitt með því að hann trúði vini sínum Martin Martinetti fyrir leyndarmálinu, fékk aðra sögu á móti og þeir nafnar tengdust á enn dýpri og víðtækari hátt en áður.

Fyrir Lísu er kynnt sem sjálfstætt framhald Jójós, en það hlýtur að vera þrautin þyngri fyrir lesendur sem ekki hafa lesið fyrri bókina að ná áttum í þessari. Frásögnin heldur áfram í beinu framhaldi, klukkutímum eftir að frásögninni í Jójó lauk, og lítið púður er lagt í að rifja upp það sem á undan er gengið.

Sem er mikill kostur fyrir þá sem lásu Jójó en hlýtur að vera frústrerandi fyrir þá sem ekki lásu hana. Rétt er því að ráðleggja lesendum að byrja á Jójó áður en lagt er í Fyrir Lísu enda verður enginn svikinn af þeim lestri.

Með því að segja vini sínum frá leyndarmálinu hefur Martin hrint af stað snjóbolta sem stöðugt hleður utan á sig og hann fær ekki stöðvað þótt hann hálft í hvoru vildi. Hann verður að segja frá ofbeldinu, ekki bara gegn sér heldur ekki síður gegn Lísu, dóttur ofbeldismannsins sem hann kynntist sem kandídat á geðdeild.

Það er hugsunin um Lísu sem knýr hann áfram og hann segir sögu sína og hennar aftur og aftur; lögreglu, sálgreinanda, konu sinni og fleirum. Eftir því sem oftar er sagt frá færist áherslan og fleiri svik skjóta upp kolli. Lausn er þó ekki endilega í sjónmáli, því eins og sálgreinandinn stórskrýtni í kjallara kapellunnar bendir á: Það er engin lækning til við þessu meini. Engin.

Stíll Steinunnar er sem fyrr fágaður og agaður og setningarnar bráðna í munni, kæta og græta. Húmor hennar fær hér einnig meira svigrúm en í Jójói og heimsóknin til sálgreinandans fer hiklaust á blað með kómískustu atriðum á hennar ferli. Lýsingar á samskiptum þeirra hjóna, Martins og Petru, eru líka magnþrungnar og ægifagrar, en í það heila vantar slagkraftinn sem Jójó bjó yfir.

Ógnin sem yfir vofði er komin fram úr fylgsninu og um leið færist þungi frásagnarinnar yfir í útskýringar og greiningar á barnaníði með æði misjöfnum árangri. Kannski ráðleggingin sem Steinunn segist hafa fengið fyrir löngu: Ekki skrifa um þetta efni, það er ekki hægt, eigi þrátt fyrir allt við einhver rök að styðjast.

Niðurstaða: Fallega stílað framhald meistaraverksins Jójós. Brilljant á köflum en líður fyrir samanburðinn og nær ekki fram sömu ógnaráhrifum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×