Körfubolti

NBA í nótt: Lakers vann eftir að Brown var rekinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þessir stuðningsmenn Lakers vildu fá Phil Jackson aftur til starfa.
Þessir stuðningsmenn Lakers vildu fá Phil Jackson aftur til starfa. Nordic Photos / Getty Images
LA Lakers vann í nótt sigur á Golden State, 101-77, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að þjálfarinn Mike Brown var rekinn frá félaginu. Hann var aðeins átján mánuði í starfi.

Lakers var stýrt af Bernie Bickerstaff sem mun þó aðeins gegna starfi þjálfara þangað til að nýr verður ráðinn.

Liðið lenti í basli í fyrri hálfleik en stakk svo af í þeim síðari með 25-9 spretti í þriðja leikhluta. Kobe Bryant fór fyrir sínum mönnum á þeim kafla en hann skoraði alls 27 stig og var með níu fráköst og sjö stoðsendingar í leiknum. Pau Gasol var með fjórtán stig og sextán fráköst.

Lakers hefur nú unnið tvo leiki á tímabilinu en tapað fimm. Áhorfendur létu vilja sinn í ljós á leiknum og hrópuðu „Við viljum Phil". Þar var átt við Phil Jackson, fyrrum þjálfara liðsins sem hefur unnið alls ellefu meistaratitla á ferlinum.

Mitch Kupchak, framkvæmdarstjóri liðsins, viðurkenndi eftir leik að Jackson væri ofarlega á óskalista hans.

Meðal úrslita annarra leikja má nefna að New York Knicks vann Dallas, 104-94, og hefur þar með unnið alla fjóra leiki sína í upphafi tímabilsins. Er það besta byrjun liðsins í meira en 20 ár. Carmelo Anthony skoraði 31 stig fyrir Knicks.

Úrslit næturinnar:

Washington - Milwaukee 91-101

Orlando - Brooklyn 68-107

Boston - Philadelphia 100-106

NY Knicks - Dallas 104-94

Atlanta - Miami 89-95

Memphis - Houston 93-85

New Orleans - Charlotte 107-99

Oklahoma City - Detroit 105-94

Minnesota - Indiana 96-94

Phoenix - Cleveland 107-105

Sacramento - San Antonio 86-97

Denver - Utah 104-84

LA Lakers - Golden state 101-77

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×