Körfubolti

NBA deildin malar gull en NFL deildin er langstærst

David Stern hefur stýrt NBA deildinni í tæplega þrjá áratugi.
David Stern hefur stýrt NBA deildinni í tæplega þrjá áratugi. AP
Rekstur NBA deildarinnar í körfuknattleik gengur vel og David Stern framkvæmdastjóri deildarinnar gerir ráð fyrir að heildarvelta deildarinnar aukist um 20% á þessu keppnistímabili. Heildarvelta NBA deildarinnar fer í fyrsta sinn yfir 5 milljarða bandaríkjadollara eða sem nemur um 645 milljörðum ísl. kr.

Stern fór yfir stöðu deildarinnar á fundi sem fram fór í New York. Þar greindi hann frá því að NBA deildin gæti farið í útrás til Evrópu eftir áratug. Og ef það yrði að veruleika yrðu nokkur lið sett á laggirnar í Evrópu á sama tíma.

„Það væri skynsamlegast að hafa Evrópudeild þegar að því kemur, það verður ekki eitt lið stofnað í þessum tilgangi," sagði Stern en hann mun láta af störfum sem framkvæmdastjóri NBA deildarinnar þann 1. febrúar árið 2014 á 30 ára starfsafmæli sínu. Adam Silver, sem hefur verið hægri hönd Stern frá árinu 2006, mun taka við starfinu.

NBA deildin er í þriðja sæti í Bandaríkjunum þegar litið er á heildarveltu stærstu atvinnumannadeilda þar í landi. NFL deildin er með mestu veltuna eða 9 milljarða dali eða sem nemur 1.160 milljörðum ísl. kr. Hafnarbolti eða MLB deildin er öðru sæti með 7,5 milljarða dala veltu á ári eða sem nemur 970 milljarða kr. Íshokkídeildin í Norður-Ameríku, NHL, er með 426 milljarða kr. ársveltu.

Tekjur NBA deildarinnar hafa aukist með auknum áhuga í löndum á borð við Kína, Tyrklandi, og Brasilíu. Sýnt er frá NBA deildinni í 216 löndum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×