Körfubolti

Magic gagnrýnir ráðningu Mike D'Antoni hjá Lakers

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Magic Johnson
Magic Johnson AP
Magic Johnson, einn þekktasti leikmaður NBA deildarinnar fyrr og síðar, gagnrýnir varaforseta LA Lakers harðlega fyrir ráðningu liðsins á Mike D'Antoni. Magic lék með LA Lakers frá árinu 1979-1996 og hann varð fimm sinnum meistari á ferlinum. Magic segir að Jim Buss, varaforseti Lakers, hafi gert afdrifarík mistök að ráða ekki Phil Jackson – sigursælasta þjálfara NBA deildarinnar.

Forráðamenn Lakers ráku Mike Brown á dögunum eftir skelfilega byrjun liðsins á tímabilinu en hann var að hefja sitt annað tímabil með liðið. Og Lakers réð Mike D'Antoni í starfið en hann var áður þjálfari New York Knicks og þar áður Phoenix þar sem að Steve Nash lék undir hans stjórn.

Magic lét allt flakka í viðtali við ESPN og þar var Jim Buss skotmarkið. „Ég hef ekki trú á því sem Jim Buss hefur gert. Hann hefur gert tvenn stór mistök. Í fyrsta lagi að ráða Mike Brown, hann var aldrei sá rétti. Hann er góður þjálfari en ekki sá rétti fyrir Lakers. Og ég tel að Mike D'Antoni sé ekki sá rétti fyrir Lakers. Sérstaklega þar sem að Phil Jackson vildi koma á ný í þetta starf – þeir nýttu ekki tækifærið. Jim Buss tók þá ákvörðun að hann vildi ekki Phil Jackson og hann valdi Mike D'Antoni. Það er í lagi en afhverju sagði hann hlutina eins og þeir voru. Stuðningsmenn Lakers kölluðu nafn Phil Jackson á hverjum heimaleik," sagði Magic m.a. í viðtalinu.

Magic Johnson er 53 ára gamall en hann greindist með HIV veiruna árið 1991 og lagði hann skóna á hilluna í kjölfarið. Hann var hinsvegar valinn í bandaríska ólympíuliðið árið 1992, hið eina sanna „Draumalið" sem sigraði með yfirburðum á ÓL í Barcelona. Hann tók síðan skóna af hillunni árið 1996 og lék með Lakers síðustu 32 leikina á tímabilinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×