Körfubolti

NBA í nótt: Enn sigrar Knicks

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carmelo Anthony í leiknum í nótt.
Carmelo Anthony í leiknum í nótt. Mynd/AP
Þrír leikir fóru fram í NBA-deildinni í körubolta í nótt. New York Knicks hefur unnið alla sex leiki sína á tímabilinu en í nótt hafði liðið betur gegn San Antonio Spurs, 104-100.

Raymond Felton skoraði 25 stig fyrir New York sem skoraði 22 af 33 síðustu stigum leiksins. JR Smith var með sautján stig og Jason Kidd fjórtán.

San Antonio brenndi af sjö af síðustu níu skotum sínum í leiknum og tapaði boltanum tvívegis síðustu tvær mínúturnar. Fram að leiknum í gær hafði San Antonio unnið sjö af átta fyrstu leikjunum sínum.

Nágrannarnir í Brooklyn Nets unnu Boston Celtics, 102-97, og þar með sinn fjórða sigur í röð. Deron Williams og Brook Lopez skoruðu 24 stig hvor í leiknum.

Rajon Rondo spilaði ekki með Boston vegna meiðsla og þá fór Paul Pierce illa að ráði sínu á lokamínútunni er hann klikkaði á tveimur mikilvægum skotum.

Joe Johnson var með nítján stig og átta fráköst fyrir Brooklyn en Pierce skoraði 22 stig fyrir Boston. Leandro Barbosa bætti við sautján.

Meistararnir í Miami unnu í nótt sinn sjöunda sigur á tímabilinu er liðið mætti Denver. Lokatölur voru 98-93, Miami í vil.

LeBron James var með 27 stig og tólf stoðsendingar en þetta var fyrsti sigur Miami í Denver í rúman áratug. Shane Battier skoraði átján stig í leiknum - öll utan þriggja stiga línunnar.

Dwyane Wade missti af leiknum í nótt vegna mei9ðsla og þá þurfti Mario Chalmers að fara af velli strax í fyrsta leikhluta vegna tognunar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×