Körfubolti

NBA: Flautukarfa Parker tryggði Spurs sigur á OKC

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Parker fagnar hér sigurkörfu sinni með Tim Duncan.
Tony Parker fagnar hér sigurkörfu sinni með Tim Duncan. Mynd/AP
Tony Parker tryggði San Antonio Spurs 86-84 sigur á Oklahoma City Thunder í eina leik NBA-deildarinnar í nótt með því að skora sigurkörfuna rétt áður en lokaflautið gall. Oklahoma City Thunder tapaði því fyrsta leiknum án James Harden en San Antonio er fyrsta liðið til þess að vinna tvo leiki á tímabilinu.

„Ég var að hugsa að ég yrði að vera fljótur að skjóta. Hann var að koma á fullri ferð," sagði Tony Parker um sigurkörfuna en besti blokkari deildarinnar á síðustu leiktíð, Serge Ibaka, var á leiðinni út í hann. Parker skoraði fimm síðustu stig leiksins því hann jafnaði metin í 84-84 með þriggja stiga körfu þegar 28,4 sekúndur voru eftir.

„Við misstum af honum og náðum honum ekki nógu fljótt en hann náði samt að setja niður erfitt skot yfir Serge. Þetta var alls ekki auðveld karfa," sagði Scott Brooks, þjálfari Oklahoma City Thunder um sigurkörfu Parker. Það er hægt að sjá myndband af körfunni með því að smella hér.

Tony Parker skoraði 14 stig og gaf 11 stoðsendingar í leiknum en Tim Duncan var stigahæstur með 20 stig auk þess að taka 8 fráköst og verja 3 skot. Danny Green var með 13 stig og Stephen Jackson skoraði 11 stig.

Kevin Durant var með 23 stig, 14 fráköst og 5 stoðsendingar fyrir Oklahoma City og Russell Westbrook var með 18 stig en einn af sex töpuðu boltum hans komu í lokasókn liðsins og gaf Parker tækifæri til að vinna leikinn. Kevin Martin, "eftirmaður" James Harden, kom með 15 stig og 5 stoðsendingar inn af bekknum.

San Antonio Spurs er nú búið að vinna tvo fyrstu leiki tímabilsins án Argentínumannsins Manu Ginobili sem er meiddur í baki. Hann gæti snúið aftur fyrir næsta leik sem er á móti Utah Jazz.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×