Körfubolti

Rose gæti misst af öllu NBA-tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Derrick Rose.
Derrick Rose. Mynd/Nordic Photos/Getty
Derrick Rose, leikstjórnandi Chicago Bulls, segir að það sé möguleiki á því að hann verði ekkert með liði sínu í NBA-deildinni í vetur. Rose sleit krossband í fyrsta leik úrslitakeppninnar í vor.

Derrick Rose fór í aðgerð í maí en hann var í viðtali á NBATV þar sem hann talaði um að það væru líkur á því að hann yrði ekkert með á komandi tímabili.

Það var búist við að Rose myndi missa sex til níu mánuði en leikmaðurinn ætlar að fara varlega af stað og byggja sig vel upp. „Hver veit hvenær ég kem til baka. Ég verð að vera tilbúinn til að koma til baka og kannski þarf ég að bíða í eitt ár," sagði Derrick Rose.

Derrick Rose var valinn besti leikmaður NBA-tímabilsins 2010-11 þar sem hann var með 25,0 stig og 7,7 stoðsendingar að meðtali í leik. Hann var með 21,8 stig og 7,9 stoðsendingar í leik í fyrra en missti þá mikið úr vegna meiðsla.

Rose skoraði 23 stig, tók 9 fráköst og gaf 9 stoðsendingar í sigrinum á Philadelphia 76ers í fyrsta leik úrslitakeppninnar síðasta vor áður en hann meiddist illa í lok leiksins. Chicago Bulls liðið vann síðan aðeins 1 af 5 leikjum án hans og féll úr leik strax í fyrstu umferð.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×