Körfubolti

Brasilískur bakvörður til Boston Celtics

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leandro Barbosa.
Leandro Barbosa. Mynd/Nordic Photos/Getty
Brasilíski bakvörðurinn Leandro Barbosa hefur gert eins árs samning við Boston Celtics og mun því spila með liðinu í NBA-deildinni í vetur. Barbosa er ætlað að koma inn af bekknum.

Barbosa lék bæði með Toronto Raptors og Indiana Pacers á síðasta tímabili en stærsta hluta NBA-ferilsins síns spilaði hann við hlið Steve Nash í Phoenix Suns.

Avery Bradley er að koma til baka eftir axlaraðgerð og verður ekkert með Boston fyrir áramót. Liðið mun því treysta mikið á Barbosa fram að því en hann mun væntanlega leysa Jason Terry af.

Leandro Barbosa er orðinn 29 ára gamall og er að fara hefja sitt tíunda NBA-tímabil. Hann hefur skorað 12,5 stig og gefið 2,4 stoðsendingar að meðaltali í 588 NBA-leikjum og 39 prósent þriggja stiga skota hans hafa ratað rétta leið.

Besta tímabil Barbosa var 2006-07 þegar hann var með 18,1 stig og 4,0 stoðsendingar að meðaltali og hitti úr 43,4 prósent þriggja stiga skota sinna. Hann var valinn besti sjötti leikmaður deildarinnar það tímabil.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×