Körfubolti

NBA mun sekta fyrir leikaraskap í vetur

Það er ekki í boði að kasta sér í gólfið í vetur.
Það er ekki í boði að kasta sér í gólfið í vetur.
NBA-deildin hefur stigið áhugavert skref sem margir vilja sjá í öðrum íþróttum. Deildin ætlar að fara að sekta leikmenn fyrir leikaraskap og ítrekuð brot enda í leikbanni. Leikaraskapur hefur farið mikið í taugarnar á forráðamönnum deildarinnar, sem og stuðningsmönnum, og nú er nóg komið.

NBA-deildin hyggst nýta sér myndbandsupptökur við að sekta menn. Við fyrsta brot fá leikmenn aðvörun. Annað brot er sekt upp á 616 þúsund krónur, þriðja brot sekt upp á 1,2 milljónir króna. Leikmenn þurfa að greiða 1,8 milljónir fyrir fjórða brot og 3,7 milljónir fyrir fimmta. Sjötta brot mun líklega vera leikbann.

"Það er ekkert pláss fyrir leikaraskap í okkar leik. Þá eru leikmenn að blekkja dómara eða áhorfendur til þess að halda að dómarinn sé að sleppa villum," segir í yfirlýsingu frá NBA.

Leikmannasamtökin eru ekki ánægð með þessa breytingu og segjast hafa viljað vera með í ráðum.

Margir leikmenn hafa aftur á móti stutt þessa breytingu og þar á meðal er Kobe Bryant.

"Ég er hrifinn af þessu. Skammarlegur leikaraskapur er fáranlegur. Við þekkjum þetta allir. Vlade Divac byrjaði eiginlega á þessu í úrslitakeppninni gegn Shaq á sínum tíma og það virkaði fyrir hann," sagði Kobe.

Þó svo flestir séu á því að þetta sé skref í rétta átt hefur heyrst gagnrýni á vægar sektir enda koma þær vart við pyngju leikmanna og alvöru afleiðingar eru í raun ekki fyrr en eftir ítrekuð brot.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×