Gagnrýni

Þytur í laufi

Þytur í laufi eftir Kenneth Grahame er ein ástsælasta barnabók breskrar bókmenntasögu. Sagan kom fyrst út árið 1908 og segir frá hinum drýldna froski herra Todda, Molda moldvörpu og besta vini hans rottunni Rotta, auk hins spaka Greifingja.

Þytur í laufi er samansett af nokkrum sjálfstæðum sögum sem segja frá lífinu í sveitum Englands um aldamótin 1900. Nútíminn fikrar sig smám saman inn í sveitasæluna. Daunillar og háværar bifreiðar hökta á moldarvegunum og hræða hestana. Stéttaskipting er mikil. Herra Toddi er óðalsbóndi og býr í glæsihúsi á meðan Moldi, Rotta og Greifingi una vel við sig í mun hógværara húsnæði. Sígaunar eru á vappi um sveitina og hreysikettirnir eru miklir óþokkar sem una sér ekki við stöðu sína í samfélaginu. Konur leika lítið hlutverk í sögunni, en nokkrar birtast þó sem hjálparhellur í ævintýrum herra Todda. Herra Toddi stelur senunni í sögunni, en hann er langskemmtilegasta persónan og hrakfarir hans óborganlegar.

Þessi útgáfa á sögu Grahame er sú fyrsta sem kemur út í íslenskri þýðingu, óstytt. Sagan er þó flestum Íslendingum vel kunn, en brúðumyndaflokkur byggður á henni var sýndur við gríðarlegar vinsældir í sjónvarpinu á 9. og 10. áratugnum. Ýmsir hafa áður spreytt sig á að þýða söguna. Stytt útgáfa eftir ónefndan þýðanda var birt sem framhaldssaga í Morgunblaðinu veturinn 1973-74, Björg Árnadóttir og Kristján frá Djúpalæk þýddu söguna og lásu upp í útvarpinu 1984 og mikið einfölduð útgáfa ætluð yngstu lesendunum kom síðan út 1989 í þýðingu Þorbjargar Jónsdóttir.

Veglega er staðið að þessari útgáfu. Bókin er prentuð á þykkan pappír, leturgerð virðuleg og sagan er fagurlega myndskreytt af ástralska myndskreytinum Robert Ingpen, en myndir hans voru teiknaðar fyrir sérstaka hátíðarútgáfu á aldarafmæli bókarinnar. Bókin sjálf er þung, eflaust of þung fyrir yngstu lesendurna, en hún fer vel í hendur foreldra sem vilja lesa söguna um Molda, Rotta og Todda fyrir börnin. Ég kunni vel að meta að útgefendur kusu að láta inngangsorð um höfund, verk og þýðingu fylgja með útgáfunni, en alltof oft birtast þýðingar á sígildum verkum hér á Íslandi án allrar útskýringar.

Jón Örn hefur lagt mikla alúð við þýðingu verksins. Textinn er trúr upprunalegri útgáfu Grahames og á köflum kemst Jón Örn listilega vel að orði, þá sérstaklega í ljóðaþýðingum sínum. Orðalag er fjölskrúðugt og margslungnar og letilegar málsgreinar kalla fram hægláta og sólríka sveitasæluna á Englandi á fyrri tíma. Þó verð ég að segja að nafngiftir söguhetjanna fóru mikið í taugarnar á mér við lesturinn. Jón Örn kýs að nefna froskinn Todda og moldvörpuna Molda, en flestir Íslendingar þekkja þessar söguhetjur úr sjónvarpinu sem Fúsa og Móla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×