Körfubolti

Phil Jackson: LeBron James getur náð Michael Jordan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Jackson og Michael Jordan.
Phil Jackson og Michael Jordan. Mynd/Nordic Photos/Getty
Phil Jackson, fyrrum þjálfari Michael Jordan hjá Chicago Bulls og sigursælasti NBA-þjálfari allra tíma segir að LeBron James eigi möguleika á því að eiga jafngóðan eða betri feril en Michael Jordan. Það fari allt eftir því hvernig LeBron James takist að nýta alla þessa líkamlegu yfirburði sem hann hefur.

Körfuboltaspekingar hafa verið duglegir að bera LeBron James saman við Michael Jordan og Jackson var alveg tilbúinn í að taka undir orð Charles Barkley sem hélt því fram á dögunum að James gæti orðið betri en MJ.

„Hann hefur alla þessa líkamlegu hæfileika og við furðum okkur öll yfir því hvernig svona maður varð til," sagði Phil Jackson í viðtali hjá ESPN Chicago.

„Varnarleikurinn hans var misjafn fyrstu árin en hann hefur unnið í honum og getur nú spilað fjórar stöður á vellinum. Ég hef ekki séð hann reyna við miðherjastöðuna en hann getur spilað hinar fjórar stöðurnar vel," sagði Jackson.

„Það er einstakt. Michael gat spilað þrjár stöður og var mjög góður í þeim öllum en Lebron hefur allan þennan líkamlega styrk. Hann hefur líka enn tíma til að nýta sér þessa yfirburði sína betur. Það er samt erfitt að fara að tala um sex titla þegar hann hefur enn ekki unnið tvo," sagði Jackson.

„Það er líka erfitt að bera saman leikmenn og velja þann besta. Það er samt mjög margt í leik James sem er að verða betra og betra og því mun bara tíminn að leiða í ljós hversu miklu hann nær út úr sínum ferli og hvort að hann nái einhvern tímann Michael Jordan," sagði Jackson.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×