Veðjað gegn hinum ósnertanlegu Magnús Halldórsson skrifar 1. september 2012 19:30 Bókin er ein sú allra besta sem komið hefur út, um atburðina ótrúlegu á Wall Street, sem eiga stóran þátt í slæmu efnahagsástandi víða um heim. Maður er nefndur John Paulson. Hann er fæddur 1955 í New York og stýrir eignastýringarfyrirtækinu Paulson & Co. Árið 2005 lagði hann grunninn að best heppnaða veðmáli viðskiptasögunnar, þegar hann skipulagði og framkvæmdi skortstöðuviðskipti á skuldatryggingamarkaðnum í Bandaríkjunum. Veðmálið á árinu 2005 var þetta; húsnæðisverð er of hátt, fjárfestar einblína of mikið á lánshæfiseinkunnir skulda í stað endurborgunarmöguleika, fjármálakerfið er á barmi hruns og allt mun hrynja. Saga Paulson er ævintýri líkust en Gregory Zuckerman, blaðamaður Wall Street Journal, hefur skrásett hana í hinni frábæru bók The Greatest Trade Ever sem kom út hjá Penguin útgáfunni seinnipart árs 2009, en hefur verið endurútgefin einu sinni síðan.Hinir ósnertanlegu Paulson þótti frekar lúðalegur sjóðsstjóri á Wall Street, skilaði hófsamri ávöxtun og gekk illa að fá stórlaxa til þess að setja pening í sjóð hans. Hann barðist þar við unga menn sem lifðu hátt, svo ekki sé meira sagt. Zuckerman dregur upp um magnaða mynd af lífi þeirra sem lifa og hrærast í fjármálaumhverfinu á Wall Street í bókinni, einkum ungum karlmönnum sem stýra vogunarsjóðum. Þeir voru ósnertanlegir, ekki ósvipað mörgum þeirra sem flugu hæst hér á landi á bóluárunum. Margt af því sem Zuckerman dregur fram í dagsljósið sýnir vel hversu mikil firring hafði gripið marga þeirra ungu stjórnenda sem störfuðu á Wall Street. Í könnun sem vitnað er til í bókinni sem gerð var meðal 300 vogunarsjóðsstjóra árið 2006, þar sem neysla þeirra var til skoðunar, kom í ljós að þeir eyddu að meðaltali 376 þúsund dölum, jafnvirði 45,8 milljóna króna, í skartgripi, 271 þúsund dölum, jafnvirði ríflega 33 milljóna króna, í úr, og 124 þúsund dölum, jafnvirði ríflega 15 milljóna króna, í „hefðbundið" dekur („traditional" spa), árlega. Launin voru líka oft fullkomlega ótrúleg, ekki síst í ljósi þess að „gróði" þeirra byggði að miklu leyti á óinnleystum hagnaði af skuldabréfatryggingum þar sem ekkert var fast í hendi – þó markaðurinn hafi litið svo á.Hvað með mig? Í þessu umhverfi var Paulson, mastersmenntaður viðskiptafræðingur frá New York University og síðar Harvard, hugsi löngum stundum. Hann spurði sig; Af hverju eru þessir ungu menn vinsælli en ég hjá fjárfestum? „Ég var efstur í bekknum mínum í Harvard". Hvernig fara þeir að þessu? Honum fannst staðan á markaðnum undarleg. Á vormánuðum 2004 kom inn á skrifstofu hans 47 ára gamall Ítali, Paolo Pellegrini, sem hafði verið með honum í námi. Hann var umtalaður í Harvard fyrir að vera afburðastærðfræðingur en sérlundaður og erfiður í samskiptum. Þegar hann kom til Paulson var ferill hans í mikilli lægð, en hann hafði eytt stórum hluta starfsævi sinnar í að búa til nýjar aðferðir til þess að meta gæði skuldatrygginga og afleiða. Enginn virtist hafa neitt sérstaklega mikla trú á aðferðum hans. Paulson ákvað að slá til, þar sem hann vissi að Pellegrini var eitursnjall og með réttri stýringu á störfum hans gæti hann verið góður liðsmaður. Fljótlega eftir að hann hóf störf byrjaði hann að kortleggja skuldatryggingamarkaðinn og þá einkum húsnæðislán. Hann komst að því að 25 prósent allra lána sem veitt voru í Bandaríkjunum voru húsnæðislán, en sú tala hafði verið 1 prósent áratug fyrr. Ofhleðsla peninga, sem ætti eftir að hrynja, var augljós að mati Pellegrini.Á móti straumnum Í tvö ár, 2005 til 2007, ruddust Paulson og Pellegrini gegn straumnum í fjárfestingum. Þeir höfnuðu múgheimskunni í ungu vogunarsjóðsstjórunum og bankastjórunum, og treystu á greiningar sínar. Paulson var þó maðurinn sem fór fyrir viðskiptunum, í eigin nafni og fyrirtækis síns. Veðmálið heppnaðist. Á árinu 2007 hagnaðist Paulson & Co um 15 milljarða dala, og John Paulson persónulega um fjóra milljarða dala. Á árinu 2008 lokuðust síðustu stöður þeirra félaga; fyrirtækið græddi fimm milljarða dala til viðbótar og Paulson tvo milljarða dala. Á innan við ári varð hann einn af hundrað ríkustu mönnum heims. Gróðinn nemur ríflega þrjú þúsund milljörðum króna, eða sem nemur tæplega tvöfaldri árlegri landsframleiðslu Íslands. Paulson, með mikilli hjálp frá Pellegrini, hafði áttað sig á að peningaháhýsið var að hrynja og hóf að búa til net til þess að grípa sem mest af peningum í fallinu. Akkúrat þegar þetta var byrjað að gerast, vorið 2007, fékk Zuckerman hringingu upp á ritstjórn Wall Street Journal, frá heimildamanni sínum í vogunarsjóði. Hann sagði honum að Paulson væri að græða ævintýralega, og hann „væri ekki einu sinni sérfræðingur í undirmálslánum, eða fasteignageiranum" – sagði hann hundfúll. Upp frá því hóf Zuckerman að ná sér í frekari upplýsingar, sem að lokum leiddi til útgáfu bókarinnar.Framtíðin Í lok bókarinnar er haft eftir Paulson að hann sé ekki hættur. „Þetta er eins og Wimbledon [mótið í Tennis], ef þú vinnur einu sinni þá langar þig í meira [...] Eftir fjögur til fimm ár mun fólk spyrja sig að því af hverju það hóf ekki að kaupa gull fyrr. Virði gjaldmiðils okkar [Bandaríkjadals] mun lækka og verðbólga mun aukast – það er okkar framtíð." Hvort Paulson hefur lagt mikið undir í veðmáli, þar sem fyrrnefnd þróun er undir, skal ósagt látið. En líklega hefur hann undirbúið sig vel og kortlagt stöðu mála. Það reyndist honum vel síðast. Persónulega myndi ég vilja sjá þessa sögu kvikmyndaða. Harvey Keitel yrði góður sem Paulson og Benicio Del Toro sem Pellegrini. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Halldórsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Bókin er ein sú allra besta sem komið hefur út, um atburðina ótrúlegu á Wall Street, sem eiga stóran þátt í slæmu efnahagsástandi víða um heim. Maður er nefndur John Paulson. Hann er fæddur 1955 í New York og stýrir eignastýringarfyrirtækinu Paulson & Co. Árið 2005 lagði hann grunninn að best heppnaða veðmáli viðskiptasögunnar, þegar hann skipulagði og framkvæmdi skortstöðuviðskipti á skuldatryggingamarkaðnum í Bandaríkjunum. Veðmálið á árinu 2005 var þetta; húsnæðisverð er of hátt, fjárfestar einblína of mikið á lánshæfiseinkunnir skulda í stað endurborgunarmöguleika, fjármálakerfið er á barmi hruns og allt mun hrynja. Saga Paulson er ævintýri líkust en Gregory Zuckerman, blaðamaður Wall Street Journal, hefur skrásett hana í hinni frábæru bók The Greatest Trade Ever sem kom út hjá Penguin útgáfunni seinnipart árs 2009, en hefur verið endurútgefin einu sinni síðan.Hinir ósnertanlegu Paulson þótti frekar lúðalegur sjóðsstjóri á Wall Street, skilaði hófsamri ávöxtun og gekk illa að fá stórlaxa til þess að setja pening í sjóð hans. Hann barðist þar við unga menn sem lifðu hátt, svo ekki sé meira sagt. Zuckerman dregur upp um magnaða mynd af lífi þeirra sem lifa og hrærast í fjármálaumhverfinu á Wall Street í bókinni, einkum ungum karlmönnum sem stýra vogunarsjóðum. Þeir voru ósnertanlegir, ekki ósvipað mörgum þeirra sem flugu hæst hér á landi á bóluárunum. Margt af því sem Zuckerman dregur fram í dagsljósið sýnir vel hversu mikil firring hafði gripið marga þeirra ungu stjórnenda sem störfuðu á Wall Street. Í könnun sem vitnað er til í bókinni sem gerð var meðal 300 vogunarsjóðsstjóra árið 2006, þar sem neysla þeirra var til skoðunar, kom í ljós að þeir eyddu að meðaltali 376 þúsund dölum, jafnvirði 45,8 milljóna króna, í skartgripi, 271 þúsund dölum, jafnvirði ríflega 33 milljóna króna, í úr, og 124 þúsund dölum, jafnvirði ríflega 15 milljóna króna, í „hefðbundið" dekur („traditional" spa), árlega. Launin voru líka oft fullkomlega ótrúleg, ekki síst í ljósi þess að „gróði" þeirra byggði að miklu leyti á óinnleystum hagnaði af skuldabréfatryggingum þar sem ekkert var fast í hendi – þó markaðurinn hafi litið svo á.Hvað með mig? Í þessu umhverfi var Paulson, mastersmenntaður viðskiptafræðingur frá New York University og síðar Harvard, hugsi löngum stundum. Hann spurði sig; Af hverju eru þessir ungu menn vinsælli en ég hjá fjárfestum? „Ég var efstur í bekknum mínum í Harvard". Hvernig fara þeir að þessu? Honum fannst staðan á markaðnum undarleg. Á vormánuðum 2004 kom inn á skrifstofu hans 47 ára gamall Ítali, Paolo Pellegrini, sem hafði verið með honum í námi. Hann var umtalaður í Harvard fyrir að vera afburðastærðfræðingur en sérlundaður og erfiður í samskiptum. Þegar hann kom til Paulson var ferill hans í mikilli lægð, en hann hafði eytt stórum hluta starfsævi sinnar í að búa til nýjar aðferðir til þess að meta gæði skuldatrygginga og afleiða. Enginn virtist hafa neitt sérstaklega mikla trú á aðferðum hans. Paulson ákvað að slá til, þar sem hann vissi að Pellegrini var eitursnjall og með réttri stýringu á störfum hans gæti hann verið góður liðsmaður. Fljótlega eftir að hann hóf störf byrjaði hann að kortleggja skuldatryggingamarkaðinn og þá einkum húsnæðislán. Hann komst að því að 25 prósent allra lána sem veitt voru í Bandaríkjunum voru húsnæðislán, en sú tala hafði verið 1 prósent áratug fyrr. Ofhleðsla peninga, sem ætti eftir að hrynja, var augljós að mati Pellegrini.Á móti straumnum Í tvö ár, 2005 til 2007, ruddust Paulson og Pellegrini gegn straumnum í fjárfestingum. Þeir höfnuðu múgheimskunni í ungu vogunarsjóðsstjórunum og bankastjórunum, og treystu á greiningar sínar. Paulson var þó maðurinn sem fór fyrir viðskiptunum, í eigin nafni og fyrirtækis síns. Veðmálið heppnaðist. Á árinu 2007 hagnaðist Paulson & Co um 15 milljarða dala, og John Paulson persónulega um fjóra milljarða dala. Á árinu 2008 lokuðust síðustu stöður þeirra félaga; fyrirtækið græddi fimm milljarða dala til viðbótar og Paulson tvo milljarða dala. Á innan við ári varð hann einn af hundrað ríkustu mönnum heims. Gróðinn nemur ríflega þrjú þúsund milljörðum króna, eða sem nemur tæplega tvöfaldri árlegri landsframleiðslu Íslands. Paulson, með mikilli hjálp frá Pellegrini, hafði áttað sig á að peningaháhýsið var að hrynja og hóf að búa til net til þess að grípa sem mest af peningum í fallinu. Akkúrat þegar þetta var byrjað að gerast, vorið 2007, fékk Zuckerman hringingu upp á ritstjórn Wall Street Journal, frá heimildamanni sínum í vogunarsjóði. Hann sagði honum að Paulson væri að græða ævintýralega, og hann „væri ekki einu sinni sérfræðingur í undirmálslánum, eða fasteignageiranum" – sagði hann hundfúll. Upp frá því hóf Zuckerman að ná sér í frekari upplýsingar, sem að lokum leiddi til útgáfu bókarinnar.Framtíðin Í lok bókarinnar er haft eftir Paulson að hann sé ekki hættur. „Þetta er eins og Wimbledon [mótið í Tennis], ef þú vinnur einu sinni þá langar þig í meira [...] Eftir fjögur til fimm ár mun fólk spyrja sig að því af hverju það hóf ekki að kaupa gull fyrr. Virði gjaldmiðils okkar [Bandaríkjadals] mun lækka og verðbólga mun aukast – það er okkar framtíð." Hvort Paulson hefur lagt mikið undir í veðmáli, þar sem fyrrnefnd þróun er undir, skal ósagt látið. En líklega hefur hann undirbúið sig vel og kortlagt stöðu mála. Það reyndist honum vel síðast. Persónulega myndi ég vilja sjá þessa sögu kvikmyndaða. Harvey Keitel yrði góður sem Paulson og Benicio Del Toro sem Pellegrini.