Körfubolti

Dwight Howard keypti heilsíðu auglýsingu í aðalblaðinu í Orlando

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwight Howard.
Dwight Howard. Mynd/AP
Dwight Howard barðist fyrir því síðustu árin að komast í burtu frá Orlando Magic og varð loks að ósk sinni í sumar þegar félagið skipti honum til Los Angeles Lakers. Miðherjinn stóri og sterki mun því spila við hlið Kobe Bryant og Steve Nash á komandi tímabili.

Það eru þrjár vikur síðan að Howard yfirgaf Orlando liðið en um helgina fannst honum rétti tímapunkturinn til að kveðja stuðningsmenn Magic-liðsins og íbúa Orlando. Howard valdi þá leið að kaupa heilsíðu auglýsingu í aðalblaðinu í Orlando um helgina en blaðið heitir Orlando Sentinel.

Auglýsingin var hæfilega væmin eins og við var að búast en þar talar Howard um ást sína á Orlando-borg og að hann munu elska borgina til æviloka. „Þrátt fyrir að ferill minn hjá Orlando sé á enda þá mun ég aldrei hætta að elska borgina og fólkið sem gerir hana svona fallega," er haft eftir Howard í auglýsingunni.

Howard þakkaði líka fyrir frábæran stuðning við sig og liðið undanfarin ár og segir að félagið hafi afrekað mikið hans tíma í Orlando allt frá því að vinna leiki og titla til þess að hafa jákvæð áhrif á unga fólkið í borginni.

Dwight Howard spilaði með Orlando-liðinu fyrstu átta árin á NBA-ferli sínum og komst næst titlinum þegar Orlando fór alla leið í lokaúrslitin 2009. Ár eftir tapaði liðið í úrslitum Austurdeildarinnar og eftir það fór að gæta óánægju hjá Howard.

Howard kláraði ekki síðasta tímabil vegna meiðsla í baki og það er ekki víst hvort að hann geti verið með í upphafi fyrsta tímabilsins hans hjá Lakers. Hæfileikar hans eru óumdeildir en kappinn er með 18,4 stig, 13,0 fráköst og 2,2 varin skot að meðaltali í 621 leik sínum í NBA. Hann var með 20,6 stig 14,5 fráköst að meðaltali síðasta vetur og tók enginn fleiri fráköst í deildinni í vetur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×