Íslenski boltinn

Verður Þór/KA Íslandsmeistari? | Akureyringum boðið á völlinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þór/KA getur orðið Íslandsmeistari í knattspyrnu kvenna þegar liðið tekur á móti Selfossi í 17. umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld. Með sigri tryggir félagið sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í meistaraflokki.

Þór/KA hefur fjögurra stiga forskot á Stjörnuna á toppi deildarinnar þegar tveimur leikjum er ólokið. Vinni Þór/KA sigur á Selfyssingum fá norðankonur bikarinn afhentan í kvöld.

Leikurinn getur einnig orðið sögulegur fyrir Selfyssinga. Sigur tryggir liðinu áframhaldandi sæti í deild þeirra bestu. Raunar geta Selfyssingar tapað svo framarlega sem annaðhvort Fylkir eða Afturelding tapi sínum leik.

Takist Selfossi að halda sæti sínu, sem virðist ætla að verða raunin, yrði um afar athyglisvert afrek að ræða. Leikmenn liðsins eru flestir ungir að árum auk þess sem tímabilið er það fyrsta í efstu deild. Liðið hefur mátt þola mörg stór töp í sumar, er með langverstu markatöluna en alltaf náð að hrista töpin af sér.

Vonast er eftir toppmætingu bæjarbúa á leikinn í kvöld sem verður sögulegur hvernig sem hann fer. Landi Þór/KA titlinum verður það í fyrsta skipti í 25 ár sem lið utan Reykjavíkur verður Íslandsmeistari í kvennaflokki.

Akureyri hefur aðeins einu sinni átt Íslandsmeistara í knattspyrnu. Það var árið 1989 þegar KA varð Íslandsmeistari í karlaflokki.

Ókeypis er á Þórsvöll í kvöld en leikurinn hefst klukkan 18. Hann er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og í opinni dagskrá á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×