Körfubolti

Snæfell vann báða leiki sína á Ljósanæturmóti kvenna í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Gunnarsdóttir.
Berglind Gunnarsdóttir. Mynd/Stefán
Kvennalið Snæfells byrjaði undirbúningstímabilið í körfunni á tveimur sigrum á Ljósanæturmóti kvenna í gær. Snæfell vann 59-56 sigur á nýliðum Grindavíkur og 66-40 sigur á Íslands- og bikarmeisturum Njarðvíkur en Njarðvíkurliðið er reyndar mjög mikið breytt frá því í fyrra.

Berglind Gunnarsdóttir var atkvæðamest í báðum leikjum Snæfells í gær en hún skoraði 21 stig í sigrinum á Grindavík og 14 stig í sigrinum á Njarðvík.

Petrúnella Skúladóttir og Berglind Anna Magnúsdóttir voru stigahæstar hjá Grindavík á móti Snæfelli með 13 stig hvor en Guðlaug Björt Júlíusdóttir skoraði mest fyrir Njarðvík á móti Snæfelli eða 11 stig.

Petrúnella er komin aftur heim til Grindavíkur eftir eitt tímabil með Njarðvík þar sem hún spilaði frábærlega og átti mikinn þátt í tveimur titlum liðsins.

Fjölnir vann 61-57 sigur á Njarðvík í þriðja leik dagsins. Eyrún Líf Sigurðardóttir var atkvæðamest hjá Njarðvík með 13 stig, en hjá Fjölni var Fanney Lind Guðmundsdóttir stigahæst með 14 stig.

Mótinu lýkur með þremur leikjum á morgun. Klukkan 17.30 hefst leikur Snæfells og Fjölnis. Klukkan 19 er það svo leikur Njarðvíkur og Grindavíkur og lokaleikur kvöldsins er síðan klukkan 20.30 á milli Grindavíkur og Fjölnis.

Upplýsingar um úrslit og stigaskor leikmanna eru af heimasíðu Njarðvíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×