Körfubolti

Kobe um komu Dwight Howard: Superman búinn að finna sér heimili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant og Dwight Howard.
Kobe Bryant og Dwight Howard. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kobe Bryant er komin aðeins nær því að vinna sjötta meistaratitilinn sinn á ferlinum eftir að miðherjinn Dwight Howard varð leikmaður Los Angeles Lakers í gær eftir risaskipti í NBA-deildinni í körfubolta.

Það þurfti tólf leikmenn og fjögur félög til þess að Howard slyppi frá Orlando Magic en miðherjinn snjalli hefur viljað komast í burtu frá Orlando í marga mánuði. Andrew Bynum fer frá Lakers til Philadelphia 76ers og Andre Iguodala, meðlimur í Ólympíuliði Bandaríkjanna spilar með Denver Nuggets á næstu leiktíð. Orlando fékk bakvörðinn Arron Afflalo og framherjann Al Harrington frá Denver, framherjann Moe Harkless og miðherjann Nikola Vucevic frá Philadelphia og svo framherjann Josh McRoberts og bakvörðinn Christian Eyenga frá Lakers.

Lakers fær Howard, bakvörðinn Chris Duhon og framherjann Earl Clark frá Orlando. Jason Richardson fer líka frá Orlando til Philadelphia en Orlando fær auk þess fimm valrétti í næstu nýliðavalinu næstu fimm árin.

Kobe Bryant var kátur í færslu á fésbókarsíðu sinni. „Jæja, það lítur fyrir að Superman sé búinn að finna sér heimili," skrifaði Kobe en hann er líka búinn að fá til sín leikstjórnandann Steve Nash og það eru spennandi tímar framundan hjá Lakers-mönnum.

Spánverjanum Pau Gasol var líka létt þegar fjölmiðlamenn spurðu hann út í fréttirnar eftir sigur Spánar á Rússlandi í undanúrslitunum Ólympíuleikanna.

„Þetta er stórfrétt. Það hafa verið svo margir orðrómar í kringum mig og mér er því létt. Ég er spenntur og get ekki beðið að hitta nýju liðsfélagana," sagði Pau Gasol sem hefur þegar hjálpað Lakers-liðinu að vinna tvo meistaratitla.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×