Körfubolti

Lakers þarf að borga tugi milljarða í lúxusskatt vegna Howard og Nash

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwight Howard
Dwight Howard Mynd/AP
Los Angeles Lakers hefur styrkt sig mikið fyrir komandi tímabil í NBA-deildinni í körfubolta því félagið krækti í stjörnuleikmennina Dwight Howard og Steve Nash í sumar. Fyrir eru kappar eins og Kobe Bryant og Pau Gasol og því verður Lakers-liðið sannkallað stjörnulið næsta vetur.

Það er aftur á móti ekki ódýrt að tefla fram svona mörgum stjörnum saman. ESPN fékk álit Larry Coon, sérfræðings í launaþaki NBA-deildarinnar og að samkvæmt hans mati mun lúxusskattur eiganda Lakers fara stigvaxandi næstu árin. Lið í NBA-deildinni sem fara yfir launaþakið þurfa að borga lúxusskatt sem er síðan dreift á milli þeirra félaga sem eru undir þakinu.

Lakers þarf að greiða 30 milljónir dollara í lúxusskatt fyrir komandi tímabil, 3,6 milljarða íslenskra króna en það eru bara smáaurar miðað við það sem bíður tímabilin á eftir. Lúxusskatturinn verður kominn upp í 85 milljónir dollara tímabilið 2013-14 vegna ákvæðis í nýja samningnum og breytist ekkert þarf eigandi Lakers að borga 115 milljónir dollara í lúxusskatt fyrir tímabilið 2014-2015 eða 13,8 milljarða íslenskra króna.

Lakers þarf einnig samkvæmt nýja samningnum að greiða hluti ágóða síns til hinna félaganna í deildinni. Larry Coon hefur því reiknað það út að stjörnufans Lakers muni alls kosta eiganda Lakers 240 milljónir dollara tímabilið 2013-2014 eða 28,9 milljarða íslenskra króna. Sú upphæð mun síðan margfaldast tímabilið á eftir.

Það er því ekki ódýrt fyrir Los Angeles Lakers að fá til sín þá Dwight Howard og Steve Nash og ekkert nema meistaratitill getur réttlætt þessar stóru upphæðir fyrir eigandanum Jerry Buss.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×