Körfubolti

Dennis Rodman búinn að skrifa barnabók

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dennis Rodman
Dennis Rodman Mynd/Nordic Photos/Getty
Dennis Rodman, meðlimur í frægðarhöll körfuboltans og einn besti frákastari allra tíma í NBA-deildinni í körfubolta, er nú orðinn barnabókarhöfundur. Rodman er búinn að skrifa barnabókina "Dennis the Wild Bull" eða "Vilta nautið Dennis".

Dennis skrifaði bókina með börn sín í huga en hann hefur verið upptekinn við það síðustu árin að laga samband sitt við börnin sín. Hann er jafnframt að reyna að senda jákvæða strauma út í samfélagið eftir að hafa verið vondi strákurinn í alltof langan tíma.

Rodman skrifar bókina með rithöfundinum Dustin Warburton og teiknaranum Dan Monroe en þetta er ekki fyrsta bókin sem hann kemur nálægt á ævinni.

Rodman tók líka þátt í að skrifa bækur eins og "Bad as I Wanna Be," "I Should Be Dead By Now" og "Walk On The Wild Side." en umfjöllunarefnið í þeim er reyndar allt annað en í nýjustu bókinni hans.

Dennis Rodman er orðinn 51 árs gamall en hann vann fimm meistaratitla með Detroit Pistons (1989 og 1990) og Chicago Bulls (1996-98) á ferlinum og var tvisvar valinn besti varnarmaður NBA-deildarinnar (1990 og 1991).

Rodman var meðal annars frákastahæsti leikmaður NBA-deildarinnar sjö tímabil í röð en hann tók 13,1 frákast að meðaltali í leik í 911 leikjum sínum í NBA-deildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×