Körfubolti

Kirilenko við það að semja við Minnesota Timberwolves

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrei Kirilenko.
Andrei Kirilenko. Mynd/Nordic Photos/Getty
Rússneski körfuboltamaðurinn Andrei Kirilenko er á leiðinni á ný inn í NBA-deildina í körfubolta samkvæmt bandarískum fjölmiðlum því allt bendir til þess að þessi mikli íþróttamaður sé að ganga frá tveggja ára samningi við Minnesota Timberwolves.

Minnesota Timberwolves er að bjóða kappanum 20 milljónir dollara fyrir 24 mánaða samning sem gera tæpa 2,5 milljarða íslenskra króna. Samkvæmt heimildum ESPN þá mun Kirilenko ráða því sjálfur hvort að hann taki seinna árið.

Andrei Kirilenko lék með Utah Jazz í tíu tímabil þar sem hann var þekktastur fyrir dugnað og góðan varnarleik en hann var með 12,4 stig, 5,6 fráköst, 2,0 varin skot og 1,4 stolna bolta að meðaltali í búningi Utah Jazz.

Kirilenko ákvað að snúa heim til Rússlands þegar NBA-deildin lá niðri á síðasta tímabili og spilaði allt síðasta tímabil með sterku liði CSKA Moskvu.

Minnesota Timberwolves var ekki eina félagið sem vildi fá Kirilenko til sín því bæði Brooklyn Nets og Golden State Warriors sýndu honum einnig áhuga.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×