Körfubolti

Ray Allen mætir Boston Celtics í fyrsta leik NBA-tímabilsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ray Allen með búning Miami Heat.
Ray Allen með búning Miami Heat. Mynd/Nordic Photos/Getty
NBA-meistararnir í Miami Heat mun hefja titilvörn sína í NBA-deildinni á móti erkifjendum sínum í Boston Celtics en NBA -deildin er búin að gefa út leikjaniðurröðunina fyrir næsta tímabil sem hefst 30. október næstkomandi.

Þetta verður örugglega skrýtið kvöld fyrir Ray Allen sem hefur leikið með Boston Celtics undanfarin ár en ákvað að semja við Miami Heat í sumar. Hann verður einn af fáum leikmönnum Miami sem munu ekki taka þátt í titilhátíð sem er alltaf í kringum fyrsta leik meistaranna á nýju tímabili.

Leikur Miami Heat og Boston Celtics verður einn þriggja leikja á opnunarkvöldi deildarinnar en í hinum leikjunum mætast Washington og Cleveland annarsvegar og Dallas og Los Angeles Lakers hinsvegar. Steve Nash mun þar spila sinn fyrsta leik við hlið Kobe Bryant.

Daginn eftir verður síðan sannkallaður New York slagur þegar Brooklyn Nets tekur á móti New York Knicks í nýju höllinni sinni; Brooklyn's Barclays Center. Oklahoma City Thunder byrjar sitt tímabil sama kvöld þegar liðið mætir San Antonio Spurs.

Eins og vanalega verða margir stórleikir á jóladag en þar vekur mesta athygli heimsókn Oklahoma City Thunder til Miami. Los Angeles liðin mun líka bæði spila heimaleik 25. desember en þau spila eins og kunnugt er bæði í Staples Center. Lakers tekur fyrst á móti New York Knicks og fimm tímum síðar mætir Clippers-liðið Denver Nuggets.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×