Körfubolti

LeBron sammála Kobe: Við myndum vinna draumaliðið frá 1992

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Kobe Bryant.
LeBron James og Kobe Bryant. Mynd/Nordic Photos/Getty
LeBron James er mættur til London ásamt bandaríska körfuboltalandsliðinu og á möguleika á að vinna sitt annað Ólympíugull. Hann er sammála Kobe Bryant með það að bandaríska liðið í dag sé betra en draumaliðið frá 1992.

„Eins og sannur keppnismaður þá trúir maður alltaf á sigur, sama hver mótherjinn er. 1992-liðið ruddi vissulega veginn fyrir okkur alla og við vitum vel hvað þessir leikmenn gerðu fyrir körfboltann," sagði LeBron James og bætti við:

„Við erum alvöru keppnismenn líka og við trúum því að við myndum vinna fengjum við tækifæri til að spila við liðið frá 1992," sagði James. Kobe Bryant sagði fyrir tveimur vikum að það væri fáránlegt að halda því fram að liðið í dag gæti ekki unnið liðið frá 1992 í einum stökum leik.

Í bandaríska körfuboltalandsliðinu frá því á leikunum í Barcelona 1992 voru ellefu Heiðurshallarmeðlimir og liðið vann alla sex leiki Ólympíuleikanna með 43 stigum að meðaltali. Í liðinu voru menn eins og Michael Jordan, Magic Johnson, Larry Bird og Charles Barkley svo einhverjir snillingar séu nefndir til leiks.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×