Körfubolti

Ainge ætlar sér að halda "gömlu" mönnunum saman hjá Boston Celtics

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Danny Ainge, forseti Boston Celtics, stendur í stórræðum þessa dagana við að halda saman Boston Celtics liðinu sem var einum sigri frá því að spila til úrslita um NBA-meistaratitilinn í ár. Leikmannamarkaðurinn opnaði á sunnudaginn.

Margir töldu að þetta yrði síðasta tímabilið þar sem Kevin Garnett, Ray Allen og Paul Pierce spiluðu saman hjá Boston en þeir urðu saman NBA-meistarar með liðinu fyrir fjórum árum. Allen er að verða 37 ára, Garnett er 36 ára og Pierce verður 35 ára í október. Ainge er ekki búinn að gefa upp vonina um að þeir spili áfram saman í Boston á næsta tímabili.

Ainge er þegar búinn að gera nýjan þriggja ára samning við Kevin Garnett og Paul Pierce gerði fjögurra ára samning við liðið fyrir tveimur árum. Stóra spurningin er síðan hvort að Ainge takist að halda Ray Allen í herbúðum Boston.

Ray Allen er með lausan samning og það er vitað að miklum áhuga frá bæði Miami Heat og Memphis Grizzlies. Boston getur þó boðið Allen meiri pening en hin liðin en Miami er að reyna að freista hans með möguleikanum á því að verða NBA-meistari með Lebron James og Dwyane Wade.

Ray Allen þurfti að fara í ökklaaðgerð eftir tímabilið en hann spilaði meiddur stóran hluta þess. Allen hefur því oft skilað betri tölum en var enga að síður mikilvægur hlekkur í liðinu í úrslitakeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×