Körfubolti

Nash til liðs við Lakers að beiðni Kobe Bryant

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Flest bendir til þess að Nash og Kobe verði samherjar næstu árin.
Flest bendir til þess að Nash og Kobe verði samherjar næstu árin. Nordicphotos/Getty
ESPN greindi frá því í kvöld að leikstjórnandinn Steve Nash hefði gengið frá samningum við Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta.

Fréttamiðlar vestanhafs hafa ekki haft undan af fréttum af kanadíska leikstjórnandanum í dag en Nash hefur undanfarin ár spilað fyrir Phoenix Suns.

Að sögn ESPN er samningurinn til þriggja ára og virði hans 25 milljónir dollara eða sem nemur rúmum þremur milljörðum íslenskra króna.

Fyrr í dag töldu fréttamiðlar vestanhafs, þar á meðal ESPN, að New York Knicks væri líklegasti áfangastaður Nash sem er á 38. aldursári. Talið var að sú staðreynd að Lakers og Suns spila í sömu deild kæmi í veg fyrir að hann færi þangað. Svo virðist ekki hafa verið.

Að sögn ESPN hvatti Kobe Bryant Kanadamanninn sérstaklega til þess að ganga til liðs við félagið sem þykir, ef tíðindin reynast sönn, líklegt til afreka í deildinni á næsta ári.

Þá er talið að stutt fjarlægð frá Phoenix, þar sem þrjú börn Nash búa, til Los Angeles hafi skipt sköpum. Um sex tíma tekur að keyra á milli Phoenix og Los Angeles þótt sá ferðamáti verði vafalítið sjaldan fyrir valinu hjá Kanadamanninum.

Ekki verður hægt að ganga formlega frá samningum fyrr en 11. júlí opnað verður fyrir félagaskipti í deildinni.

NBA

Tengdar fréttir

Nash nálgast Knicks

Leikstjórnandinn Steve Nash, leikmaður Phoenix Suns í NBA-körfuboltanum, er sterklega orðaður við New York Knicks í bandarískum fjölmiðlum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×