Körfubolti

LeBron: Besta sem gat komið fyrir mig var að tapa titlinum í fyrra

LeBron fagnar ógurlega í nótt.
LeBron fagnar ógurlega í nótt.
"Þessi titill skiptir öllu. Þetta er hamingjusamasti dagur lífs míns," sagði LeBron James eftir að hann vann sinn fyrsta NBA-titil í nótt. Hann losnaði um leið við mikla pressu en margir efuðust um að honum myndi takast að vinna titil.

Þó svo James hafi flutt sig yfir frá Cleveland til Miami í miklu betra lið kom titillinn ekki án fyrirhafnar. Liðið tapaði í úrslitum í fyrra og lenti í vandræðum í úrslitakeppninni í ár. Í sjálfum úrslitunum var aldrei spurning hvernig færi.

"Þetta er það erfiðasta sem ég hef gert síðan ég tók upp körfubolta níu ára gamall. Þetta sýnir og sannar hvað hægt er að afreka ef maður leggur allt í sölurnar. Þá uppsker maður."

Það vakti mikla reiði margra hvernig James stóð að vistaskiptum sínum til Miami og hann varð í kjölfarið einn óvinsælasti íþróttamaður Bandaríkjanna.

"Í fyrra var ég að reyna að þagga niður í fólki. Fólk var að segja að ég væri sjálfselskur og það fór í taugarnar á mér. Það virkilega fór í taugarnar á mér því þetta er liðsíþrótt. Ég var að reyna að sanna fyrir fólki allan síðasta vetur að það hefði rangt fyrir sér. Ég var í raun að berjast við sjálfan mig.

"Það besta sem gat komið fyrir mig var að tapa í úrslitunum í fyrra og að ég skildi hafa spilað eins og ég spilaði. Það var það besta sem hefur komið fyrir mig á ferlinum því í kjölfarið leitaði ég aftur í grunnstoðirnar. Ég varð auðmjúkur. Ég vissi að ég yrði að breyta mér sem körfuboltamaður og persóna. Ári seinna uppsker ég ríkulega."

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×