Körfubolti

Aðeins sá fimmti sem tryggir sér titilinn með þrefaldri tvennu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James fagnar í nótt.
LeBron James fagnar í nótt. Mynd/Nordic Photos/Getty
LeBron James komst í fámennan hóp í nótt þegar hann hjálpaði Miami Heat að vinna NBA-meistaratitilinn í körfubolta eftir 121-106 sigur á Oklahoma City Thunder í fimmta leik liðanna í úrslitaeinvíginu.

James átti enn einn stórleikinn í einvíginu og endaði hann með þrefalda tvennu; 26 stig, 13 stoðsendingar og 11 fráköst. Aðeins fjórir aðrir leikmenn í sögu NBA-deildarinnar hafa tryggt sér titilinn með þrefaldri tvennu.

Síðastur til að afreka slíkt á undan James var Tim Duncan með San Antonio Spurs á móti New Jersey Nets í úrslitunum 2003. Duncan var reyndar nálægt fjórfaldri tvennu í þeim leik því hann var þá með 21 stig, 20 fráköst, 10 stoðsendingar og 8 varin skot.

Hinir sem hafa náð þessu eru James Worthy, Larry Bird og Magic Johnson tvisvar sinnum.

James Worthy var með 36 stig, 16 fráköst og 10 stoðsendingar í sigri Lakers á Detroit Pistons 1988 en Larry Bird var með 20 stig, 11 fráköst og 12 stoðsendingar í sigri Boston Celtics á Houston Rockets árið 1986.

Magic Johnson náði þessu með Los Angeles Lakers bæði árin 1982 og 1985. Magic var með 13 stig, 13 fráköst og 13 stoðsendingar í sigri á Philadelphia 76ers 1982 og þremur árum síðar var hann með 14 stig, 10 fráköst og 14 stoðsendingar í sigri á Boston Celtics.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×