Körfubolti

KKÍ kynnti Domino's-deildirnar í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nýtt nafn á úrvalsdeildir karla og kvenna í körfuknattleik var kynnt til sögunnar í dag en þær hafa heitið Iceland Express deildirnar undanfarin sjö ár eða frá og með 2005-06 tímabilinu. Næstu þrjú árin munu efstu deildir karla og kvenna hinsvegar bera nafn Domino's og heita Domino's deild karla og Domino's deild kvenna.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ og Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Domino's Pizza, undirrituðu samning milli Domino's og KKÍ á fundi í Laugardalnum. Þar kom fram að Domino's mun koma myndarlega að starfi körfuboltans á Íslandi næstu þrjú árin en ýmsar nýjungar tengdar Domino's deildunum verða kynntar í haust fyrir upphaf keppnistímabilsins.

„Domino's og KKÍ eru spenntir fyrir samstarfinu og ljóst er að Domino's mun koma myndarlega að starfi körfuboltans á Íslandi næstu þrjú árin," segir í frétt á heimasíðu Körfuknattleikssambands Íslands.

Tólf lið eru í Domino's-deildar karla sem hefst sunnudaginn 7. október en átta lið eru í Domino's-deild kvenna sem hefst miðvikudaginn 3. október. Úrslitakeppni karla hefst fimmtudaginn 21. mars en úrslitakeppni kvenna hefst aftur á móti þriðjudaginn 2. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×