Körfubolti

Svíi valinn inn í NBA-deildina í nótt - Jordan valdi Jeffrey Taylor

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jeffrey Taylor.
Jeffrey Taylor. Mynd/Nordic Photos/Getty
Svíinn Jeffrey Taylor varð í nótt þriðji sænski körfuboltamaðurinn í sögunni sem er valinn inn í NBA-deildina. Charlotte Bobcats notaði þá 31. valréttinn til að tryggja sér Taylor en það er einmitt Michael Jordan sem ræður öllu hjá Bobcats-liðinu.

Jonas Jerebko, núverandi leikmaður Detroit Pistons, var valinn númer 39 fyrir þremur árum síðan en Jerebko var með 8,7 stig og 4,8 fráköst að meðaltali með Pistons á síðasta tímabili.

Jeffrey Taylor er 23 ára og 201 sm framherji sem hefur spilað með Vanderbilt-háskólanum við góðan orðstýr. Hann var með 16,1 stig og 5,6 fráköst í leik á lokaárinu sínu auk þess að hitta úr 42 prósent þriggja stiga skota sinna en hann þykir líka mjög góður varnarmaður.

Jeffrey Taylor er sonur Jeff Taylor sem lék í NBA-deildinni með Houston Rockets (1982–1983) og Detroit Pistons (1986–1987) áður en hann fór til Evrópu. Taylor settist að lokum að í Svíþjóð þar sem hann eignaðist Jeffrey árið 1989.

Jonas Jerebko og Jeffrey Taylor verða væntanlega báðir með sænska landsliðinu í undankeppni EM sem hefst í næsta mánuði.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×